Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:21]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel mig vera að svara andsvari en ekki að veita andsvar en það er kannski ekki alltaf alveg skýrt á hvorn veginn það gengur í þessu samtali sem við eigum hérna í andsvörum. Ég vil þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni aftur fyrir þessa umræðu. Þetta er sannarlega áhugavert. Þetta skerðir augljóslega réttindi og það skerðir möguleika eiganda hlutarins til að beita sínum rétti að þurfa að tilkynna að hann ætli að mæta á hluthafafund. Maður getur alveg ímyndað sér aðstæður þar sem honum dettur það ekki í hug eða það koma upp aðstæður, kemur eitthvað upp á sem veldur því að á síðustu stundu telur hann ástæðu til þess að mæta á slíkan fund. Það skýtur dálítið skökku við og það þykir, held ég, í eðli sínu undarlegt að hægt sé að setja svona reglur: Nei, þú mátt ekki mæta. Þess vegna hringir það líka viðvörunarbjöllum að lesa rökstuðning á borð við þennan þar sem er bara vísað í ákveðin rök en hvergi kemur fram neins staðar í málinu, hvergi, hver þau rök eru fyrir því að takmarka heimildir hluthafa með þessum hætti nema það hafi tíðkast í framkvæmd stundum og sums staðar. Þetta er svo sem ekki eina dæmið sem við sjáum um að verið sé að lögfesta hluti sem hafa tíðkast í framkvæmd en hafa verið gagnrýndir. Það getur vel verið að þetta hafi hreinlega sætt mikilli gagnrýni og jafnvel bent á að þetta væri ekki löglegt en þá er ekki gripið til þess ráðs að hætta ólögmætri háttsemi heldur er bara farið í það að lögfesta hina ólögmætu háttsemi. Við sjáum það víðar þó að ég ætli nú ekki að fara að skipta um umræðuefni í þessari mikilvægu umræðu. Ég vil bara þakka hv. þingmanni aftur fyrir samtalið.