Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni varðandi það að hér sé verið að breyta dagskrá í rauninni með mjög skömmum fyrirvara, ekki síst vegna þess að það gerðist akkúrat hérna áðan þegar gert var fimm mínútna hlé á fundi, eftir að við vorum búin að sitja í fjórar klukkustundir í atkvæðagreiðslu, að þá gátu þingmenn brugðið sér fram og fengið sér matarbita. Það sem gerist þá er að dagskránni er breytt og út detta ákveðnir liðir sem gerir það að verkum að þingmenn, sem áttu kannski ekki von á því að þurfa að fara upp í pontu og taka til máls alveg strax, þurftu að gjöra svo vel að leggja diskinn frá sér og hlaupa upp í pontu. Þetta er í sjálfu sér ekki stórmál en ég vil kannski gera athugasemd við það að fólki sé ekki gefið nægilegt svigrúm til að melta það sem er í gangi þegar verið er að breyta dagskrá. Það færi t.d. ekkert illa á því og góður bragur væri á að gera einfaldlega örstutt hlé á þingfundi þannig að þingmenn gætu undirbúið sig og annað slíkt. Svo ítreka ég bara gagnrýni mína sem kom fram hér rétt áðan um að við hefðum ekki fengið neinn matartíma, bara fimm mínútna kvöldmatartíma.