Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég byrja á að þakka forseta góða fundarstjórn sem lýsir sér í því að þegar hún var spurð hvað málið væri með að 13. dagskrármálið hefði horfið af dagskrá þá svaraði forseti nokkrum mínútum síðar. Við eigum ekki alltaf von á slíkri greiðvikni frá forsetum en þetta er auðvitað til fyrirmyndar.

Mig langar að víkja aðeins að 16. dagskrármálinu sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson benti einmitt á að fundist hefðu tvær villur í. Þetta hefur ekki komið fram svo ég viti á opinberan máta þannig að mér þætti ágætt að fá staðfest frá forseta að svo væri. Málið var jú vissulega prentað upp til að leiðrétta einhverja villu varðandi skammstöfun en síðan eru einhverjar villur í þeim tölum sem fram koma með málinu. Þá er nú voðinn vís vegna þess að þetta frumvarp er 412 síður af töflum með tölum og skammstöfunum og engu öðru. Þannig að ef það er einhver villupúki í því máli sem ríkisstjórnin er að koma með löngu eftir alla fresti og vill fá afbrigði til að klára fyrir jól þá velti ég fyrir mér hvort ríkisstjórnin sé bara að setja þinglok í uppnám með eigin slugsaskap.