Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[22:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég hef ekki náð að komast í þetta mál áður í umræðunni, ég hef verið fastur í fjárlagaundirbúningnum. Það er gott að geta komist aðeins í þetta hérna á seinni stigum, sérstaklega af því að athugasemdir mínar upplýsa okkur dálítið um hugarfar og skort á ákveðinni þekkingu í stjórnkerfinu, í stjórnsýslunni, sem ég tel vera mjög mikið vandamál. Við erum með Stafrænt Ísland sem er mjög metnaðarfullt verkefni og eftir því sem ég best veit vel skipað fólki sem kann þetta en stofnanirnar eru margar, þetta eru rúmlega 160 stofnanir, og lögin eru mörg og þetta er ekki það stórt teymi sem getur gert ábendingar um hver einustu stafrænu áform eða stafrænar áætlanir sem er verið að gera. Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson benti á það sem nefnt er í 7. gr. en þar á lagagreinin að orðast svona, með leyfi forseta

„Ársreikningum og samstæðureikningum skal skilað rafrænt til ársreikningaskrár í samræmi við reglur sem ársreikningaskrá setur.“

Lagagreinin sjálf er mjög góð. Hún er í rauninni mjög opin til ákveðinnar útfærsla en útfærslan, eins og er fjallað um hana í greinargerðinni, á 7. gr., er þannig, með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu er eins og fyrr segir lagt til að ársreikningum verði skilað rafrænt, þá annaðhvort á pdf-formi eða þegar um örfélög er að ræða einfaldari útgáfu af ársreikningi sem byggist á skattframtali félagsins.“

Þessi einfaldari útgáfa er væntanlega nær því að vera í rauninni rafræn útgáfa því að pdf-skjal er mjög flókið hvað varðar aðgengi að upplýsingunum sem eru í skjalinu. Þær eru ekki mjög aðgengilegar fyrir í fyrsta lagi mannsaugu og fyrir gagnavinnslu eru þær yfirleitt mjög óaðgengilegar því þegar þú færð pdf-skjal frá tveimur mismunandi aðilum þá nærðu yfirleitt ekki með sömu forritum að ná í sömu upplýsingarnar úr báðum skjölum. Ef þú vilt kannski ná í skuldastöðu allra fyrirtækja í ársreikningaskrá þá er það ekki séns. Það er enginn gagnagrunnur þarna ef þú þarft að fara í gegnum og skanna pdf-útgáfurnar af ársreikningum, jafn mismunandi útgáfur og þær geta verið. Lagagreinin hér sem slík gefur möguleikann á því að þessi rafrænu skil séu betur útfærð.

Mér finnst greinargerðin gefa til kynna þekkingarleysi. Það er rosalega nauðsynlegt að við förum að hugsa hlutina aðeins öðruvísi og út frá gagnamiðaðri hugsun. Hæstv. fjármálaráðherra hefur talað um að hér þurfum við Ísland 2.0. Ég set það alltaf í svona samhengi veftækninnar. Það var talað um vefinn 2.0, á ensku Web 2.0, í kringum aldamótin eða svo. Nú erum við komin í útgáfu 4, 5 og 6 og hvað það nú er sem er í bígerð varðandi það hvernig við skiptumst á upplýsingum. Veraldarvefurinn var til að byrja með einmitt búinn til fyrir vísindamenn til að deila vísindagreinum og til þess að passa upp á það að tenglar vistuðust á milli þannig að það þyrfti ekki að fletta upp vísindagreininni eða niðurstöðunum sem vísað var í, það var hægt að smella á tengil sem færði þig á það skjal. Þannig var búið til ákveðið net skjala sem var hægt að klóra sig í gegnum eða labba á milli með tenglunum. Þessi hugsun hefur orðið þeim mun mikið stærri, hún er orðin svona fyrir öll gögn, ekki bara skjölin heldur textaeiningarnar rauninni í skjölunum, gagnaeiningarnar í skjölunum svo ég sé nákvæmari. Þá getur þú sagt, utan frá: Ég vil fá skuldastöðu allra fyrirtækja á landinu og þú færð það með einni einfaldri skipun. Ég vil fá raunverulega eigendur allra félaga á Íslandi og þú færð bara svar strax. Þú gefur skipun um að þú viljir fá raunverulega eigendur þessara tíu fyrirtækja og þú ert kominn með svar strax, ekki tíu mismunandi pdf-skjöl sem þú þarft að opna og skruna í gegnum, afrita inn í eitthvað annað skjal til að bera saman hvort þetta sé sama fólkið eða ekki. Það er þessi hugsun sem við þurfum að uppfæra í stjórnkerfinu, að pdf-skjöl eru ekki rafræn skil. Þetta er skannaður pappír, kannski aðeins meira en það, en næstum því þannig í rauninni og er í rauninni algjörlega gagnslaus þegar kemur að því að nota gögnin sem er verið að skila.

Mig langar til að lýsa þessu betur, ég var með frumvarp fyrir einhverjum árum síðan þar sem átti að opna fyrirtækjaskrá. Fyrirtækjaskrá er með rafræn skil á því hvaða fyrirtæki eru skráð o.s.frv. og það átti að opna fyrirtækjaskrá þannig að það þyrfti ekki að borga til þess að fá niðurstöður úr rafrænni leit. Sama með ársreikningaskrá. Á þeim tíma tók þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þetta inn í sitt frumvarp og gerði ársreikningaskrá opna þannig að núna getum við farið í fyrirtækjaskrá og leitað að fjárfestingafélaginu Máttur, við getum séð að það var stofnað 2005 og hvenær því var slitið. Við getum séð alla ársreikningana sem var skilað. Við getum smellt á það að kaupa ársreikninginn sem áður kostaði pening en núna förum við bara í körfuna og hölum niður pdf-skjalinu, í alvörunni, en við fáum það alla vega frítt. Þá getum við lesið yfir það og séð hvernig skuldastaða var á milli ára og ýmislegt svoleiðis en við þurfum að gera það allt handvirkt.

Þessu tengt er að það vantar slíkan opinn aðgang að hluthafaskrá, sem er sérstaklega bagalegt út af því hversu sjaldan hluthafaskrá er uppfærð. Hún ætti að vera uppfærð í rauntíma þannig að við sæjum alltaf þegar hluthafar eru að breytast. Það að vera með fyrirtæki á Íslandi eða hvar sem er í rauninni eru upplýsingar sem allir eiga að hafa aðgang að alltaf. Ég hef séð það í fjölmiðlaumræðu t.d. að einhverjir fyrirtækjaeigendur hafa talað um að skuldastaða fyrirtækjanna þeirra sé einhvern veginn varin persónuvernd. Það er bara bull. Þetta er fyrirtæki, fyrirtæki sem ég og þú erum að kaupa eða eiga viðskipti við og við viljum vita og geta skoðað hvort fyrirtækið eða eigendur þess séu t.d. á einhvern hátt tengdir kennitöluflakki, eru með röð fyrirtækja sem hafa öll farið á hausinn. Þetta er bara nokkurs konar Trip Advisor eða eitthvað því um líkt, umsagnir um fyrirtækin. Það þarf að hafa þetta opnara, aðeins betra. Það hefði gert t.d. Bankasýslu ríkisins mjög auðvelt fyrir eða fjármálaráðherra þegar hann fær lista yfir alla þá sem eru að bjóða í t.d. Íslandsbanka, þá væri hann með allar upplýsingarnar strax aðgengilegar. Það er listi af fyrirtækjum og allar upplýsingar sem tengjast þeim fyrirtækjum streyma beint inn í þá fyrirspurn, t.d. fyrirspurn í fyrirtækjaskrá, um það hverjir eru raunverulegir eigendur. Hver er fjárfestingarvelta þeirra eða því um líkt, standast þeir samkvæmt þeim skilyrðum grunnkröfur um að vera hæfir fagfjárfestar eða ekki? Það er einfaldlega bara merkt út frá gögnunum hvað á við og hvað ekki. Þegar ráðherra sér að hér er eitthvað sem á ekki alveg við þá getur hann spurt nánar um það: Hvernig virkar þetta, er þessi hæfur fagfjárfestir? Hann uppfyllir ekki þessi skilyrði. Það getur komið raunhæf útskýring á því af hverju viðkomandi aðili sé hæfur fjárfestir eða ekki, en upplýsingarnar eru aðgengilegar á miklu einfaldari og sjálfvirkari hátt og með tímanlegum hætti.

Ég myndi vilja sjá þessa hugsun ganga út í allar stofnanir hins opinbera. Við þurfum að breyta þessu frá grunni, hvernig við nálgumst og skipuleggjum gögn og aðgengi að gögnum og upplýsingum eins og er. Við sjáum í þessu frumvarpi hversu stutt við erum komin á þeirri leið. Ég fæ dálítið fyrir hjartað þegar ég sé þetta, minn bakgrunnur er í gæðaeftirliti og tölvuleikjum og vinnslu gagna, t.d. að vinna með bankaupplýsingar og stórar miklar markaðsupplýsingar vegna tölvuleikja, þar sem ég var að gera markaðsgreiningar á kaupum og sölum á vörum eða notkun á ákveðnum gæðum í leiknum. Þetta eru nefnilega upplýsingar sem við ættum að vera að nota í alvöruhagkerfinu, ekki bara í platleikjahagkerfinu heldur í okkar eigin hagkerfi. Við getum gert hlutina miklu betur, miklu hagkvæmar og miklu hraðar af miklu meiri gæðum sem kemur í veg fyrir villur. Kunningi minn sagði mér t.d. þá sögu, hann var að vinna í bönkum fyrir hrun, að þau sendu uppfærslur á Fjármálaeftirlitið, sendu einhver excel-skjöl á vikufresti eða eitthvað svoleiðis um ákveðna stöður og því um líkt og tóku ekki eftir því að það vantaði óvart tvö núll eða hvort það voru tvo aukanúll í einhverri færslu. Fjármálaeftirlitið tók ekkert eftir því. Bankinn lagaði það tveimur vikum seinna og sendi leiðréttingu. Æ, fyrigefið. Þetta sýnir okkur líka hversu erfitt eftirlitið er með öllum þessum upplýsingum þegar við erum að glíma við þær á pappírsformi eða þess vegna í excel-skjölum eða á pdf. Þetta er ekki rétt leið til að nálgast það hvernig við deilum og dreifum gögnum og það gerir okkur svo rosalega erfitt fyrir. Hérna á Alþingi erum við með svokallað Alþingi-xml., það er vefsíða, og er með upplýsingum um ýmiss konar skjöl og fundargerðir og fleira sem er hægt að lesa ýmsa hluti úr. Ég hef t.d. notað það til að búa til mætingareinkunn hjá þingmönnum í nefndir. Maður sér að það er munur miðað við fyrri ár, áður en ég fór að safna þeim upplýsingum og setja þær saman og birta þær, eftir það betrumbættist mæting þingmanna í nefndir gríðarlega. Allt í einu varð miklu betri mæting þingmanna í nefndir, bara af því að það var verið að halda mætingarlista sem allir sáu og var aðgengilegur öllum. Áður var hann ekki aðgengilegur. Það þurfti að fara inn í hverja fundargerð fyrir sig, það þurfti að púsla saman tímanum þegar viðkomandi mætti o.s.frv., og þegar farið var lengra aftur var ekki einu sinni skráð klukkan hvað fólk var að koma á fundi eða yfirgefa fundi.

Við getum gert svo miklu meira. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að við byrjum á því sem allra fyrst og þá þarf að innleiða þennan hugsunarhátt í stofnanirnar hjá okkur þannig að þær geri ekki ráð fyrir því að þessu verði bara reddað með pdf.