Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:05]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið og ég er honum hjartanlega sammála. Að sjálfsögðu þarf að laga löggjöfina þannig að það sé ekki mismunun í því hvernig er hægt að nálgast þessa hluti, annað er eiginlega galið. Ég átta mig t.d. ekki á því, á okkar tæknivæddu tölvuöld, af hverju þessi skrá er bara uppfærð einu sinni á ári. Má ekki uppfæra þetta jafnóðum og reglulega? Fyrir utan að það ætti ekki að vera neitt leyndarmál. Það þarf ekki að fela neitt. Allt sem er ekki uppi á borðum og lítur út fyrir að vera einhvers staðar bak við hurð veldur manni bara óþægindum, fær mann alltaf til að finnast að það sé eitthvert grugg í gangi, fær mann alltaf til að líða ekki vel með hlutina. Því meira sem við höfum uppi á borðum því betra. Þá langar mig aftur að hæla akkúrat Pírötum fyrir baráttu þeirra, þrotlausa baráttu fyrir því að við séum ekki að greiða neinar krónur fyrir að fá að skoða ársskýrslur. Það er bara eitt af því sem ætti að vera algerlega sjálfsagður hlutur, að almenningur ætti að geta, hvort sem hann er efnamikill eða efnalítill, fengið að skoða ársskýrslur án þess að þurfa að greiða krónu fyrir þann aðgang.