Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:41]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, 11. þm. Reykv. s., fyrir fína ræðu um þetta mál. Hún fjallaði um 1. gr. og ég get ekki annað séð en að með henni sé nánast verið að fótumtroða hluthafalýðræði með því að skilyrða það með þessum hætti. Það er ekki gott að skilyrða lýðræði, sérstaklega þar sem þetta virðist beinast gegn þessum minnstu hluthöfum sem hafa ekki stjórnarmenn, hafa ekki sína menn í stjórn fyrirtækisins. Ég get ekki annað séð en þetta sé eins konar vörn fyrir stóru hluthafana.

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Ráðuneytinu hafa borist ábendingar þess efnis að það geti verið vandkvæðum bundið að undirbúa fund og koma upplýsingum á framfæri við hluthafa nægilega tímanlega fyrir hluthafafund þegar fundurinn er haldinn rafrænt annaðhvort að hluta til eða eingöngu.“

Ráðuneytinu hafa borist ábendingar þess efnis að það geti verið vandkvæðum bundið að undirbúa fund — hvaða vandkvæði er verið að tala um? Getur hv. þingmaður upplýst það eða veit hún hvaða vandkvæði það gætu verið?

Þetta er opinn fundur fyrir hluthafa. Það er sett dagskrá og hún er send út og það er ekki hægt að breyta dagskrá nema með nokkurra daga fyrirvara. Ef einhver hluthafi ákveður að mæta samdægurs — ég ætla að mæta á hluthafafund sem verður eftir hádegi — hvaða vandkvæði koma þá upp varðandi undirbúning? Ekki er það skortur á snittum eða kaffi eða eitthvað svoleiðis? Ég get ekki séð hvað getur haft efnisleg áhrif á dagskrá fundarins ef einhver hluthafi ákveður skyndilega að mæta. Einnig er það þetta að koma upplýsingum á framfæri hluthafa nægilega tímanlega — það er bara algjörlega á ábyrgð hluthafans. Ég get ekki séð að þau rök sem liggja þarna til grundvallar séu nægjanleg fyrir þessa miklu skerðingu á rétti hluthafa eins og fjallað var um árið 1978.