Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:50]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir áhugaverða ræðu. Ég var að velta fyrir mér hvort hún hefði eitthvað spáð eða hugsað út í mikilvægi minnihlutaverndar þegar kemur að hlutafélögum. Nú er það alveg til í dæminu að meiri hluti — kannski þykir það bara mjög lýðræðislegt en engu að síður — sem getur jafnvel verið naumur meiri hluti, og hefur verið smalað saman eða eitthvað þess háttar, geti valtað yfir minni hluta. Dæmi eru þekkt víðs vegar um heim um að minni hluti í félagi sé í raun hlunnfarinn vegna ákvarðana meiri hluta. Frægt dæmi og tiltölulega nýlegt var þegar fyrirtækið Tesla var að stíga sín fyrstu skref og stofnendum fyrirtækisins var bara bolað burt út af Elon Musk. Þetta er spurning sem ég held að sé alveg vert að velta fyrir sér, hvort ekki sé mikilvægt að skoða frumvörp sem þessi, frumvörp um hlutafélög, út frá sjónarmiðum um minnihlutavernd; að ekki sé hægt að hlunnfara fólk af því að það lendir í minni hluta, þetta eru jafnvel stofnendur sem allt í einu eru lentir í minni hluta og svo eru hreinlega teknar ákvarðanir um að hlunnfara þetta fólk. Ég hefði áhuga á að heyra skoðanir hv. þingmanns á þessu.