Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  13. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[00:52]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur fyrir andsvarið. Líkt og ég hef nefnt ítrekað í kvöld, bæði í ræðum mínum, andsvörum og svörum við andsvörum, þá hringir þetta miklum viðvörunarbjöllum, ekki síst með svona hluti. Það er margt sem bendir til þess að þarna búi eitthvað að baki sem við vitum ekki hvað er. Það eru ákveðin réttindi sem verða fyrir borð borin sem við áttum okkur ekki nákvæmlega á hver eru vegna þess að það er verið að krefjast þess að við lesum á milli línanna. Þegar við erum að sinna jafn mikilvægu hlutverki og því að samþykkja lög frá Alþingi, sem verða þá gildandi lög í landinu, er algjört lágmark að við séum fyllilega upplýst um tilgang laganna og hver áhrif þeirra eru. Ég hef nú talað um það, í tengslum við önnur mál hér á þinginu, að mér hefur þótt vanta mjög mikilvæga þætti í lagasetningarferlið, sem lúta einmitt að því að kanna áhrif þeirra reglna sem við erum að setja hérna um réttindi fólks. Það á við í þessu sem öðru. Ég verð að játa að eftir því sem þessari umræðu vindur fram þá er það ekki til að minnka áhyggjur mínar af þessu frumvarpi. Ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns. Ég deili þessum áhyggjum.