Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:19]
Horfa

René Biasone (Vg):

Virðulegi forseti. Samkvæmt mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna er sérhver manneskja, án tillits til kynþáttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis og annarra aðstæðna, borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum. Þetta er leiðarljós yfirlýsingarinnar sem var undirrituð í desember 1948 eftir stríð sem endaði með fjöldamorðum af völdum kjarnorkuvopna. Gino Strada, hinn kunni ítalski baráttumaður fyrir friði, sagði, með leyfi forseta, að það að tryggja og byggja undir mannréttindi væri besta forvörnin gegn stríði. Við þekkjum vel hörmungar vegna stríða eins og í Úkraínu og Palestínu og Jemen en á síðustu árum hafa u.þ.b. 40 virk átök til viðbótar verið í gangi í heiminum. Á sama tíma eiga tæplega 30 einstaklingar meiri auð en fátækasti helmingur jarðarbúa. Það er ljóst að kapítalískt kerfi heims er tilbúið til að fórna réttindum og lífum einstaklinga til að viðhalda og auka auð fárra. Að baki stríðsátökum liggja hagsmunir hergagnaiðnaðarins og yfirráð yfir auðlindum jarðarinnar. Á sama tíma er matur, læknishjálp, menntun og örugg búsetuskilyrði mjög takmörkuð mannréttindi í heiminum. Stríð eyðileggur náttúruauðlindir sem hægt væri að nýta til að sigrast á hungri og fátækt. Í fyrra námu útgjöld til hernaðarmála á heimsvísu tveimur trilljónum bandaríkjadala. Það er þúsund sinnum meira en rennur til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Virðulegi forseti. Mannréttindi ættu að vera ófrávíkjanleg réttindi allra. Það er mín sannfæring að við eigum að treysta mannréttindi og fordæma stríðsrekstur sem veldur hungri og þjáningu. Okkur sem þingmönnum ber skylda til þess að stuðla að friðsamlegum lausnum í stað stríðs. Það er eina vitið.