Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Þegar fólk veikist eða nánustu aðstandendur lenda á sjúkrahúsi vakna oft alls kyns tilvistarlegar spurningar. Fólk fyllist angist og kvíða, fer að velta fyrir sér dauðanum og leita svara við öðrum stórum spurningum um líf og lífslok. Til þess að styðja fólk í þessum aðstæðum hefur Landspítalinn ráðið níu sálgæsluaðila, sem er vel enda er þetta sannarlega mikilvægur þáttur í umfangsmiklu verkefni heilbrigðiskerfisins. Þessir sálgæsluaðilar eru sjö prestar og tveir djáknar. Prestarnir eru allir yfirlýstir fulltrúar þjóðkirkjunnar. Hlutverk sálgæsluteymisins er, samkvæmt bæklingi sem útgefinn er af Landspítalanum, að sinna sálgæslu og helgihaldi. Við hljótum flest að vera sammála um að sálgæsla innan heilbrigðiskerfisins sé mikilvæg, bæði fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. En hvernig stendur á því, virðulegi forseti, að hún er eingöngu í boði á kristilegum grundvelli? Það er ljóst að þjónusta sem veitt er af fólki sem hefur sína grunnmenntun í guðfræði, ber starfstitla sem eru skírskotun í embætti kirkjunnar og eru vígðir þjónar kirkjunnar, getur aldrei verið óháð trú eða trúarbrögðum eins og fulltrúar sálgæsluteymisins, vil ég meina. Hér er ég ekki að gefa í skyn að þessir einstaklingar séu ekki fagfólk á sínu sviði. Þau rækja starf sitt vafalaust öll af kostgæfni. Það gefur samt augaleið að forsendur starfsins eru kristilegar og því getur verið erfitt fyrir fólk sem ekki kristið að þiggja þjónustu á þeim grundvelli. Enda hefur það verið kannað og samkvæmt könnun sem Maskína gerði í byrjun árs 2020 svaraði stór hluti því að ólíklegt væri að þau þæðu kristilega sálgæslu í þessum aðstæðum eða heil 37%. Aðeins 39% sögðust myndu þiggja hana. Kristileg sálgæsla nýtist því mögulega einungis 40% þeirra sem þurfa á sálgæslu halda. Hins vegar voru tæplega 60% sem sögðust myndu þiggja veraldlega sálgæslu og bara 13% sem hefðu afþakkað slíka þjónustu. (Forseti hringir.) Er ekki kominn tími til að innleiða trúarlega hlutlausa sálgæslu í heilbrigðiskerfið okkar?