Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni Lenyu Rún Taha Karim fyrir andsvarið. Þetta eru allt mannanna verk sem við erum að glíma við og það er hægt að byrja á því að nudda glýjuna úr augunum og fara að framkvæma. Hvað þarf starfshópur að sitja lengi að störfum til þess að ganga í það t.d. að lyfta upp lágmarksframfærslu? Það er bara mannanna verk að lyfta upp lágmarksframfærslu. Það liggja algerlega fyrir tölur á blaði um hverjir eru með lægstu greiðslurnar. Lyftið þessu fólki upp. Það er ekki flóknara en það. En besta hugmyndin sem hefur komið fram til þessa kemur frá mínum frábæra flokksbróður, Guðmundi Inga Kristinssyni, þar sem hann einfaldlega bendir á: Af hverju greiðum við þeim ekki 13. mánuðinn? Af hverju einfaldlega greiðum við ekki 13. mánuðinn hér? Hverjir eru það sem raunverulega þyrftu meira á honum að halda? Engir. Flokkur fólksins hefur mælt fyrir frumvarpi um 400.000 kr. lágmarksframfærslu skatta- og skerðingarlaust. Í ræðu minni hér á undan talaði ég um að það væri verið að hækka húsaleigu hjá einni konu, einum öryrkja, einhverja litla íbúð, upp í 325.000 kr. Það sér hver heilvita maður hvað 400.000 krónurnar myndu gera fyrir hana. Hún gæti borgað leiguna, hún gæti kannski splæst á sig að hafa rafmagn, síma, heitt vatn og sjónvarp. Hún gæti ekki keyrt rosalega mikið um og bruðlað í bensín og hvað þá verið að borða mikið meira en léttasta hafragraut og grjónagraut alla daga. Það er ekki meira sem þessi framfærsla gæti gert þegar leigumarkaðurinn er eins ógeðslega græðgisvæddur og viðbjóðslegur og hann er orðinn. En þetta er bara verk sem þarf að vinna og það þarf að gera það í gær, hv. þingmaður, ekki á morgun eða eftir tvö ár eða brytja þetta niður til framtíðar og jafnvel í fangið á nýrri ríkisstjórn.