Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:12]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni Lenyu Rún Taha Karim fyrir síðara andsvarið. Hún fagnar endurskoðun almannatryggingalaganna. Ég verð að viðurkenna að ég verð skelfingu lostin þegar ég hugsa um það því að ég veit ekki hvað þau gera við kerfið. Það þarf að núllstilla þetta kerfi og byrja alveg upp á nýtt með hreint borð. Þetta er eins og Guðmundur Ingi Kristinsson, minn góði hv. þingmaður og flokksbróðir segir: Þetta er eins og bútasaumað skrímsli, þetta er bara Frankenstein. Það er gert ráð fyrir því núna að leggja ákveðna fjármuni inn til þess að koma til móts við þetta svokallaða starfsgetumat sem er grundvöllurinn að öllu því sem heitir heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu, til þess að reyna að ná þessum einstaklingum út á vinnumarkaðinn, höfðu áður ekki starf fyrir þá eða neina fjármuni að baki, en mér skilst að nú sé verið að reyna að tryggja það. Flokkur fólksins hafði svolítið aðra nálgun. Við vildum einfaldlega gefa öryrkjum kost á því að meta sína heilsu sjálf, ekki að einhver bírókrati eða karl úti í bæ gæti sagt mér hvenær mér liði illa og hvenær ég væri bær til þess að vera að vinna heldur í rauninni að gefa mér tækifæri og verðlauna einstaklinginn: Þú verður ekki skertur, elskulegi öryrki, næstu tvö árin á meðan þú ert að reyna fyrir þér og finna þig á atvinnumarkaðnum. Þannig var það einmitt sem Svíarnir gerðu og 32% þessara öryrkja skiluðu sér ekki aftur inn á almannatryggingakerfið. Ég get ekki með nokkru lifandi móti skilið hvers vegna það er ekki reynt hér. Hér er kvartað yfir því hvað það kostar mikið að vera með veikt fólk á þessu kerfi en að það sé raunverulega stigið út fyrir rammann og sýnd djörfung og dugur og einhver nýjung í því að athuga: Er þetta kannski kraftaverkaleið til þess einmitt að hjálpa fólkinu okkar aftur út í lífið, að efla mannauðinn okkar alveg upp á nýtt, að gefa þeim kost á að taka þátt í samfélaginu með okkur öllum hinum? — Flokkur fólksins segi já.