Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:18]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom áðan í ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar og þakka honum fyrir að gera athugasemdir við þetta. En ég vil halda því til haga að ég hélt því ekki fram í þessum ræðustól að hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir væri almennt óheiðarleg manneskja eða neitt slíkt. Ég vil bara taka fram að ég ber gríðarlega virðingu fyrir hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur og finnst hún að mörgu leyti mjög aðdáunarverður stjórnmálamaður en einmitt þess vegna geri ég ríkar kröfur til hennar og geri kröfu um sannsögli og heiðarlega framsetningu hér í þessum sal og í þessum ræðustól. Ég stend við þau orð mín að það er ákveðinn óheiðarleiki sem felst í þeirri yfirlýsingu sem kom fram af hennar hálfu í þessum ræðustól í gær og það er ákveðinn óheiðarleiki sem birtist í því þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar draga til baka (Forseti hringir.) sínar breytingartillögur á í raun upplognum forsendum að því er virðist um það hverjar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar yrðu. (Forseti hringir.) Hæstv. forsætisráðherra fór með rangt mál í gær (Forseti hringir.) í samanburði sínum á umfangi þessara mismunandi breytingartillagna og þetta er mjög alvarlegt og við verðum að geta talað með hreinskiptum hætti um þetta.