Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:46]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Frú forseti. Ég er hér kominn fyrst og fremst til að þakka fyrir þær 1100 milljónir sem hafa verið veittar til að gera öryrkjum á Íslandi bærilegra að lifa af jólin. Þeirra vandi er meiri en flestra okkar sökum skerðingar á orku og þreki og möguleikanum til að starfa og afla sér tekna og viðurværis. Ég er afar ánægður með að það mál sé í höfn. Hitt er auðvitað óheppilegt, sem er margbúið að nefna í gær og í dag, að eftir sitji einhverjir sem falla milli skips og bryggju af tæknilegum ástæðum; af lagatæknilegum ástæðum hætta þeir að vera öryrkjar og verða eldri borgarar á einhverjum tímapunkti og kjör þeirra skerðast.

En nú hefur komið í ljós, fyrir sirka klukkustund síðan, að samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar eru þetta kannski ekki eins margir og talið var í fyrstu. 360 milljónirnar sem hefði þurft til að gera kjör þeirra jöfn eða sambærileg við það sem hér er verið að samþykkja — þeir munu vera nær 2000 en 6000 og þar með væru milljónirnar ekki 360 heldur nær 120 milljónum, ef rétt reynist. Þetta ber að skoða. Í því ljósi held ég að það ætti ekki að vefjast fyrir þeim sem fara hér með fjárveitingavald upp á tæplega 1100 milljarða að finna út úr því, þannig að allir geti verið sáttir og við þurfum ekki að dvelja mikið við þetta.

Stóra verkefnið er auðvitað það sem legið hefur fyrir um árabil og það er að koma þessum málum í heila farsæla höfn til langrar framtíðar og það er til endurskoðunar núna. Heildarendurskoðunin sem hvorki verður í askana látin né snædd, eins og hér hefur komið fram, er yfirstandandi og er það vel, og mér heyrist hún vera lengra komin en hugað var fyrir sirka misseri síðan. Því ber mjög að fagna.

Þegar ég gekk til liðs við Flokk fólksins fyrir liðlega ári síðan þá var eitt af stefnumálum flokksins 350.000 kr. lágmarkslaun, skatta- og skerðingarlaust. Ég vissi svo sem ekki á þeim tíma nákvæmlega hvernig þetta væri reiknað út, það var gott og gilt sem ég heyrði að þetta væri í raun lágmarksframfærslukostnaður einstaklings og ég veit að þeir sem eru t.d. í leiguhúsnæði, misstu húsnæði sitt eða eignuðust ekki húsnæðið sem þeir þráðu eru að borga fyrir kannski eins til tveggja herbergja íbúð einhverjar 250.000 kr. hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem tveir þriðju þjóðarinnar býr. Fjöldi fólks er að fá sirka það, 240, 250, kannski 260.000 á mánuði, og þá er eftir dýrasta matarkarfa okkar heimshluta og allur kostnaðurinn sem vex og vex, bensínlítrinn kominn upp í 333 kr. frá því í síðasta mánuði og bjórlítrinn eða hvað það nú er sem menn vilja gera sér til upplyftingar og dagamunar. En 350.000 kr. mætti auðvitað ná fram með ýmsum hætti og þyrfti í rauninni að gera betur miðað við þær hækkanir sem hafa orðið. Flokkur fólksins segir í dag: 400.000 kr. Þegar ég lét reikna þetta út þá náðum við niðurstöðu í þetta mál með því að hugsa sem svo að ef persónuafsláttur upp á 54.000 yrði hækkaður fyrir hina tekjuminnstu upp í 56.000, þá værum við komin að því marki sem við höfum verið að ræða og stefna að. Þetta myndi kosta ríkissjóð í heildina 53 milljarða en með vaski, hagrænum áhrifum af þessari innspýtingu í ráðstöfunarfé svo margra og öðru sem reiknaðist inn yrðu heildaráhrifin á ríkissjóð sirka 35 milljarðar. Það er ekki stór upphæð ef þetta næði fram að ganga. Þó að sú upphæð yrði uppfærð milli ára nær 400.000 kr. þá værum við í sjálfu sér að leysa ansi mörg vandamál með einni heildarlausn.

Hvaðan fengjum við slíka peninga? Svarið er afar einfalt. Það er auðlindagjald sem nær yfir grænu uppspretturnar, alla orkuna sem úr iðrum kemur, úr fallvötnunum, og allan aflann úr sjónum sem við eigum hlutdeild í, sem við í raun eigum en njótum hlutdeildar í með veiðigjöldum sem óhjákvæmilega þurfa að hækka vegna þess að þau hrökkva ekki fyrir útgerðarkostnaði eftirlitsstofnana og stoðkerfa sjávarútvegsins. Þjóð sem aflar jafn mikils og íslenska þjóðin fer létt með að sjá um þessa tíund landsmanna sem er við fátækramörk að óbreyttu og búin að vera um árabil, hverra kjör eru upp á líf og dauða; hvort 60.300 kr. fáist til dýrasta mánaðar ársins með allri ekki bara tilkynningarskyldunni heldur tilfinningaskyldunni, gjafaskyldunni sem búið er að koma hér á dagskrá þannig að ekki verður frá vikist þegar um er að ræða maka, börn, barnabörn og annað slíkt. 60.000 kr. duga fyrir afar fáum og ódýrum gjöfum, ef nokkrum. Þær duga að líkindum fyrir hátíðarmáltíð fyrir sirka 6–8 manns með aðföngum.

En látum það kyrrt liggja og segjum sem svo: Hér er alla vega ein leið til að endurskoða þetta kerfi þannig að við verði unað. Við erum tiltölulega fljót að finna út úr þessu, ná þessum peningum í hús og deila þeim út með þeim hætti sem best má gera með atfylgi Tryggingastofnunar og þeirra sem að þurfa að koma, en ég er á því að við björgum þessu núna fyrir alla þá sem þurfa að fá. Það vantar ekki mikið upp á miðað við það sem við erum að samþykkja hér, 1100 milljarða; 60.300 per öryrkja og til viðbótar u.þ.b. 120 millj. kr. fyrir þá sem gleymdust eða lentu þarna einhvern veginn utan borðs. Þá held ég að við getum gengið sátt að jólaborðum hvers og eins og sagt: Við gerðum okkar besta á árinu 2022, en frá og með árinu 2023 skulum við einsetja okkur að vera búin að koma þessu í horf svo fullur sómi verði að. Munum það að öryrkjar á Íslandi eru fjölmargir og u.þ.b. 40% glíma við það sem heitir andleg örorka. Þar eru kvíði og þunglyndi og alls kyns geðraskanir og vandamál, sem einu sinni voru feimnismál en eru það sem betur fer ekki lengur. Nú tölum við um það eins og hverja aðra flensu eða hvern annan sjúkdóm sem má glíma við. Rétt eins og öldrun sem er búið að skilgreina sem sjúkdóm af vísindamönnum úti í heimi, þá bregðast menn við því með stoðefnum, lyfjum, vítamínum eða hverju sem til þarf. Ástand heimsins í dag er þannig að þeir sem eru að glíma við kvíða eða þunglyndi eru sennilega fleiri en ella. Við bendum á Covid, stríðið í Úkraínu og þá óðaverðbólgu sem er í gangi, ekki bara hér heldur í heiminum öllum. Vonandi mun þetta ástand ganga yfir fyrr en seinna og við getum horft á lygnari sjó. Við eigum að einsetja okkur það við þessi bráðum áramót sem við stöndum andspænis, að láta þetta verða síðustu áramótin á Íslandi þar sem við erum að rífast um 60.000 kall til eða frá fyrir hópa sem eru augljóslega við endimörk þess að geta lifað hér af. Rísum undir því að vera velferðarsamfélag, ríkt samfélag og réttsýnt samfélag.