Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:00]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og mig langaði í seinna andsvarinu að skyggnast aðeins dýpra ofan í hlutina. Nú veit ég að hv. þingmaður var alla vega einu sinni jafnaðarmaður og þar er jú sú trú að við eigum að reyna að bæta lífsskilyrði þeirra sem verst eru sett í þjóðfélaginu. Það er nú líka einmitt það sem Flokkur fólksins stendur fyrir. Ég nefndi það í ræðu í gær, ef ég man rétt, að auðkýfingurinn Warren Buffet hefði einhvern tíma sagt eitthvað á þá leið að skattkerfið væri gallað ef ritarinn hans þyrfti að borga meiri skatta en hann sjálfur. Hv. þingmaður ræddi einmitt um í ræðu sinni að við þurfum að hækka það sem hinir verst settu í þjóðfélaginu fá, hvort sem það er með eingreiðslum, með því að borga 13. mánuðinn, hækka þennan lífeyri eða annað. Einhverjar leiðir þurfum við að fara og við þurfum að sækja fjármagn annars staðar frá til að borga fyrir slíkt. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvort hann sé sammála þeim sem var einu sinni þriðji ríkasti maður heims, um að þeir sem eru ríkari eigi að borga stærri skerf og taka þátt í því að tryggja þennan jöfnuð fyrir þá verst settu.