Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:02]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir sínar góðu og vitundarvekjandi spurningar hér. Einu sinni jafnaðarmaður, ávallt jafnaðarmaður. Skammstöfunin á jafnaðarmaður er JFM, nota bene. Ég er jafnaðarmaður með áherslu á einstaklingsframtak. Ég held þú gætir sagt að ég væri einstaklingshyggjumaður með ríkar tilhneigingar til félagshyggju og jafnaðarmennsku. Ég tel að svo sé farið um meginþorra Íslendinga. Við erum hér í nokkuð blönduðu hagkerfi. Við erum með sósíalíska hugsun að austan og kapítalíska að vestan og höfum verið mikið í Bandaríkjunum.

Svo ég svari nú spurningunni þá er það auðvitað fráleit hugmynd að ritari Warrens Buffets greiði hærri skatt en hann. Skattkerfin eru mannanna verk, ófullkomin og í eilífri endurskoðun. Okkar hlutverk hér á þingi felst að mínu mati í því að fínstilla það sem fyrir er; verum stolt af því að vera ein af helstu vöggum lýðræðis og jafnaðarhyggju á hnattkúlunni. Ég minnist fornrar sögu af manni sem bar viðurnefnið kerlingarnefur. Hann stóð fyrir því í Skagafirði að smala saman hundruðum manna, kvenna og barna. Allir héldu að þeir væru að ganga til fagnaðar en harðindin voru svo mikil að það var í rauninni verið að grafa þessu fólki gröf, það átti að steypa öllum í gröfina út af harðindum og blankheitum. Sem betur fer hefur engin slík hugmynd komið fram á Íslandi síðan og kemur vonandi aldrei. Við skulum við sjá um hvort annað og passa að öllum líði vel á okkar góða landi.