Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:06]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða eingreiðslu til öryrkja, jólabónus upp á 60.300 kr. og ber að þakka að það hafi náðst í gegn og sé núna komið í 3. umr. Inga Sæland hefur barist fyrir þessu í mörg ár og ég kom fyrst inn á þing í fyrra þar sem það náðist í gegn þá með miklu harðfylgi að bónus yrði greiddur þá. Nú stöndum við aftur í sömu sporum nema það verður að telja ríkisstjórninni það til tekna að nú brást hún fyrr við og ákvað að veita öryrkjum þennan jólabónus. Við erum samt ekki enn þá búin að ganga frá því. En það vantaði náttúrlega líka inn í þennan pakka ríkisstjórnarinnar fyrir öryrkja að huga að öldruðum. Ég ætla að koma aðeins betur að því á eftir.

Við tölum stundum um það að Ísland sé besta landi í heimi. Hér hafa mjög margir það bara mjög gott, sem betur fer. Það ber að þakka og við eigum að vera ánægð með það. En við erum eitt ríkasta land í heimi og það er ekki í lagi að í þessu fámenna landi, við erum ekki nema eins og bara smáborg úti í heimi, að við getum ekki hugsað almennilega um okkur öll vegna þess að það er nóg til. Það fer ekkert á milli mála að það er nóg til. En við höfum búið hérna til þjóðfélag misskiptingar í stað þess að búa til þjóðfélag þar sem allir hafa það gott, kannski misgott. Ég get alveg sætt mig við að sumir hafi meira en aðrir en ég get ekki sætt mig við það að sumir lifi við fátækt. Það er allt annar hlutur. Við erum velferðarríki eða ég tel að við séum velferðarríki en ég vil meina að við séum svolítið laskað velferðarríki.

Mig langar að vitna hérna í gamla grein:

Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, þar sem ég er formaður eins og kannski margir vita, höfum talað fyrir því í mörg ár að gera þurfi í raunframfærsluviðmið sem grunnlaun, tryggingar, bætur og atvinnuleysistryggingar yrðu miðaðar út frá, vegna þess að neysluviðmið sem notuð hafa verið til grundvallar eru ekkert annað en mæling á neyslu en hafa ekkert með það að segja hvað það kostar raunverulega fyrir fjölskyldur að lifa á Íslandi. Vegna þess að ef bara neysla er mæld og svo er bara deilt í það með einhverri tölu þá tekur það í sjálfu sér ekkert tillit til þess að ef þú átt bara 200.000 kr. þá eyðirðu bara 200.000 kr. þó að þú þyrftir að eyða 400.000 kr. Til skýringar þá felst munurinn á útreiknuðum neysluviðmiðum og raunframfærsluviðmiðum í því að annars vegar er miðgildi raunneyslu mælt út frá fyrirliggjandi gögnum frá Hagstofu Íslands en hins vegar er eðlileg raunframfærsla fundin út af sérfræðingum og er þá miðað við að skilgreina framfærsluþætti og þjónustu sem á að teljast fullnægjandi lýsing á hóflegri eða eðlilegri framfærsluþörf fjölskyldunnar af tiltekinni stærð á tilteknum stað og á tilteknum tíma.

Ég er núna að vitna í bréf sem skrifað var af fyrrverandi formanni Hagsmunasamtaka heimilanna árið 2011 og ég ætla að halda áfram að vitna í þetta bréf. Vilhjálmur segir, með leyfi forseta:

„Út frá skilgreindum framfærsluþáttum sem teljast uppfylla eðlilega framfærsluþörf er fundinn raunframfærslukostnaður. Raunframfærslukostnaður og lágmarksframfærsluviðmið unnin út frá þeim hafa um margra ára skeið verið opinber á öðrum Norðurlöndum, svo sem Danmörku, Svíþjóð og Noregi.“

Þegar Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir, sem var formaður hagsmunasamtakanna, skrifaði þetta þá sat hann í Velferðarvaktinni fyrir hönd hagsmunasamtakanna. Hann kallaði fundina þar teboð dauðans þegar hann ræddi um þá vegna þess að hann var ekki alveg sáttur við hvernig tekið var á málinu. Hann hélt áfram og skrifaði, með leyfi forseta:

„Ástandið á eftir að versna mikið ef við förum ekki að horfast í augu við vandann og gera það sem gera þarf og viljum við meina að það sé mikill dulinn vandi, t.d. vegna þess að fjármálastofnanir skrái vandann ekki rétt og séu ekki að gefa upp réttar tölur um fjárhagsvanda heimilanna. Má í því sambandi minnast á að það eru ekki til samræmdar tölur um þann vanda sem þó er hægt að mæla og frumvarp sem gefur leyfi til samkeyrslu gagn er kæft í nefnd þingsins. Þetta er ekkert annað en þöggun af verstu tegund sem kemur til með að bíta okkur illilega þegar hið rétta kemur í ljós og áhyggjur okkar í Hagsmunasamtökum heimilanna er að þá verði vandinn orðinn nánast óbærilegur fyrir allt of marga með öllu því slæma sem því fylgir.“

Þetta var skrifað 2011. Hér erum við 2022 og ég held að þessi orð hafi sýnt sig vera sönn; vandinn er orðinn nánast óbærilegur fyrir allt of marga með öllu því slæma sem því fylgir.

Vilhjálmur heldur áfram og skrifar:

„Eins og ég hef beðið um áður og talað um á fundum nefndarinnar þá fer fram á að inn í þessa skýrslu sem við eigum að skila af okkur séu eftirfarandi kröfur okkar í Hagsmunasamtökum heimilanna:

1. Að skorað sé á Alþingi að samþykkja strax frumvarp um rannsókn á fjárhagsstöðu heimilanna sem liggur fyrri og gerir það kleift að samkeyra upplýsingar frá lánastofnunum og öðrum um skuldavanda heimilanna. Þegar það er komið í gegn er fyrst hægt að fara að skoða skuldavanda heimilanna í samhengi og koma með góða greiningu á vandanum sem gefur aftur kost á því að bregðast rétt við vandanum og koma okkur út úr þessari stöðnun sem við erum í og sem er að stoppa þjóðfélagið ef ekkert verður að gert.

2. Að við förum fram á að Alþingi setji strax lög um raunframfærsluviðmið en út frá því má svo finna út lágmarksframfærsluviðmið og því sé rækilega komið til skila í skýrslunni að það sé ekki bara skuldavandi sem fólk á við að etja heldur líka launavandi sem felst í því að grunnlaun eru of lág miðað við raunframfærslukostnað eins og sýnt hefur verið fram á t.d. með mælingu Velferðarráðherra á rauneyðslu sem kallað var neysluviðmið. Einnig hefur þetta komið fram í fjölmörgum greinum og skýrslum undanfarið og má þar t.d. nefna skrif Hörpu Njáls og talsmanns neytenda og að okkar mati kemur þetta ennþá betur í ljós þegar samkeyrsla á fyrirliggjandi gögnum verður leyfð, samanber lið 1 hér fyrir ofan.“

Núna 11,5 ári síðar hafa raunframfærsluviðmið ekki enn verið reiknuð út. Ef við myndum gera það þá kæmi strax í ljós að tekjur margra duga engan veginn til framfærslu og að við erum búin að dæma þá sem eru veikir, svo veikir að þeir lenda á örorku eða eru komnir á efri ár, kannski eftir hafa allt lífið verið annaðhvort á örorku eða lágum launum, við erum að dæma þetta fólk til fátæktar. Það er harður dómur fyrir það eitt að hafa ekki fulla heilsu eða fyrir það eitt að eldast eftir að hafa ekki borgað í lífeyrissjóði og verið á vinnumarkaði.

Ef við skoðum framfærslureiknivél umboðsmanns skuldara kemur í ljós hversu alvarleg staðan er vegna þess að samkvæmt henni kostar framfærsla einstaklings 195.000 kr. fyrir utan allan húsnæðiskostnað. Það að lifa, bara það að draga andann, kostar 195.000 kr. Ef við bætum húsaleigu við það upp á 230.000 þá kostar það 425.000 fyrir þennan einstakling að lifa. Við vitum það öll að hér eru þúsundir sem hafa minni tekjur en það. Örorkubætur eru langt undir því og ég veit ekki alveg hvort lægstu laun nái þessu. En ef viðkomandi er að borga 320.000 í leigu, eins og t.d. hún Brynja, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, þá þarf þessi einstaklingur 515.000 kr. til að standa straum af lágmarksframfærslu sinni. Ég minni á að Brynja hefur 320.000 kr. til ráðstöfunar á mánuði.

Hér höfum við þurft að berjast fyrir jólabónusnum upp á 60.000 kr. Það þurfti að berjast í fyrra og ég veit að það þurfti að berjast í nokkur ár þar á undan. Við náðum árangri núna að hluta, þ.e. öryrkjar fá núna þennan jólabónus, þessa eingreiðslu, en aldraðir, sem eru jafnvel í enn verri stöðu, fá hana ekki. Það er rosalega alvarlegur hlutur. Það er rosalega sorglegt að horfa á að við séum tilbúin til að láta eins og þessi vandi sé ekki til, vegna þess að það hlýtur eiginlega að vera það sem þingheimur er að gera, að hann trúi ekki að þessi vandi sé til þegar hann hafnar því að borga eða að láta aldrað fólk sem lifir í sárri fátækt fá 60.000 kr., reyndar 60.300 samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Mig langar líka að minna á að það eru 11 aðrir mánuður í árinu þar sem tekjur þessa hóps, hvort sem er öryrkjar eða aldraðir, duga engan veginn til. Þeir þurfa þessar 60.000 kr. í hverjum einasta mánuði. Þannig að það er alltaf svolítið súrrealískt að við skulum í alvöru vera að þrasa um það hvort þetta fólk, sem hefur það verst af okkur öllum, eigi að fá þessar 60.000 kr. einu sinni á ári.

Ég held líka að við megum alveg velta fyrir okkur áhrifum þess að búa við þessa stöðu viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, að sjá aldrei fram úr neinu, að sjá aldrei fram á bjartari tíma. Hvaða áhrif hefur það á andlega heilsu? Hér hefur oft verið rætt að Íslendingar eigi met í alls konar geðlyfjanotkun, við erum þunglynd og ég man ekki hvað hefur verið talað um og það er mikill vandi meðal barnanna okkar þar sem kvíði og ýmislegt annað er að plaga þau í miklu meira mæli en við höfum nokkurn tímann séð. Hvaða áhrif hefur það á einstaklinga að búa við svona aðstæður alltaf? Ég hef persónulega aldrei upplifað það að eiga ekki mat á borðið fyrir börnin mín. Ég hef aldrei upplifað það og þakka bara fyrir að hafa aldrei þurft að upplifa það. En ég hef upplifað ógn yfir heimili mínu, sem var yfir mér í 11 ár, þar sem ég beið eftir að bréfið kæmi um að núna væri komið að næstu fyrirtöku eða núna yrði byrjað aftur eða hvernig það var. Í rauninni má segja að ég hafi alla vega í 11 ár verið svona þremur mánuðum frá því að þurfa að flytja, alltaf. Það étur mann að innan. Ég gat samt gleymt því inn á milli af því að jú, ég hafði alltaf nóg að bíta og brenna og stundum fengum við smá hlé, ef svo má segja, þ.e. við gátum gleymt þessu inn á milli á meðan við fengum frið kannski í einhverja mánuði. Þetta var samt alltaf þarna, alltaf, og þetta étur mann að innan. Ég hafði þó alltaf þá von, gat alltaf haldið í þá von, ég trúði því bara að réttlætið myndi ná fram að ganga.

En ef ég er t.d. öryrki og það er ekkert annað fram undan en það, aldrei, hvað verður þá um vonina? Hvað verður þá um það að hafa eitthvað til að halda í, sem sagt bara von um betri tíma? Vegna þess að ég veit að von um betri tíma hélt í mér lífinu. Ég held að við þurfum að fara að hugsa þessi mál á öðrum grunni en þeim að koma með einhverja reddingu eins og við séum eins og jólasveinar í desember með 60.000, sem er frábært. Ég þakka virkilega fyrir að við fengum það í gegn, en engu að síður eru 11 aðrir mánuður í árinu og við þurfum virkilega að hugsa um okkar minnstu bræður og systur.