Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:24]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir andsvarið. Já, það er ekki til framfærsluviðmið, það er bara til neysluviðmið. Það er í rauninni ekki til framfærsluviðmið sem er opinbert. Ég man eftir því, og ég held að ég fari örugglega rétt með, að þegar Vilhjálmur var á velferðarvaktin var honum hreinlega sagt að það væri of dýrt fyrir ríkið að finna út raunverulegt framfærsluviðmið af því að þá yrði að hækka allar bætur það mikið. Við höfum notað það. Þetta er eitt af fimm meginmarkmiðum hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, að allir eigi rétt á að lifa því sem við köllum hófsömu og mannsæmandi lífi. Það spyrja margir hvað sé hófsamt og mannsæmandi líf. Það þýðir náttúrlega að þú átt húsaskjól. Þú hefur efni á að taka frí. Þú getur komið börnunum þínum í tómstundir. Það er enginn að tala um einhvern bilaðan lúxus eða neitt þannig en kannski bara það að lifa ekki við stöðugar fjárhagsáhyggjur. Við erum einhvern veginn að byggja upp þjóðfélag þar sem allir lifa, alla vega þeir sem eru með meðaltekjur og minna, með stöðugar fjárhagsáhyggjur. Það getur ekki verið gott. Við vitum það alveg að hér er á sama tíma fólk sem lifir í vellystingum praktulega og getur leyft sér hvað sem er og það er ekki til í að láta neinn spón úr sínum aski fyrir þá sem minna hafa. Það er staðan og það fólk virðist almennt vera varið út fyrir gröf og dauða af ríkisstjórninni og ekki bara af þessari ríkisstjórn heldur alla vega öllum ríkisstjórnir frá hruni og örugglega þótt lengra væri leitað.