Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:28]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er bara algerlega sammála hv. þingmanni Gísla Rafni Ólafssyni. Þetta er til háborinnar skammar. Við eigum ekki að þurfa að ræða þetta hérna hvert einasta ár. Þetta var í rauninni ekki að frumkvæði ríkisstjórnarinnar, Inga Sæland var búin að leggja þetta fram, bæði náttúrlega núna og líka nokkur árin á undan, alla vega fimm sinnum held ég að hún hafi gert þetta. En við fögnum því að ríkisstjórnin hafi tekið undir þetta. En þetta er alveg rétt, við ættum núna t.d. að vera að setja þetta í fjárlögin fyrir 2023. Núna ættum við að vera að ræða um eingreiðslu til öryrkja í desember á næsta ári. Það á ekkert að þurfa að fara fram einhver umræða um þetta á Alþingi í hvert einasta skipti. Eins og ég sagði áðan þurfa öryrkjar þessa greiðslu hvern einasta mánuð. Hvað varðar þá verst settu í samfélaginu er það alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, að við ættum frekar að vera að rífast um og ræða hversu mikið þeir sem mest hafa leggja til samfélagsins heldur en að við séum að ræða hversu lítið við getum sloppið með að láta þá verst stöddu hafa. Þetta er röng forgangsröðun og við þurfum að breyta þessu. Ég held að við ættum núna, eins og ég segi, að vera að ræða jólabónus næsta árs. Ég reyndar nefndi það í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun með óformlegum hætti að í rauninni hefðum við átt að gera það en það var aðeins of seint í rassinn gripið hjá mér að koma því á framfæri.