Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Hér kom hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar áðan, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, og var að verja hæstv. forsætisráðherra og tala um að forsætisráðherra væri að bera saman óbreytt kerfi. En það er vandamálið, það þarf að breyta kerfinu á hverju ári til að halda í við verðlagsþróun og launaþróun til að fleiri og fleiri skerðist ekki. Ef engu er breytt þá skerðast fleiri og fleiri út úr kerfinu af því að upphæðirnar hverfa bara í rauninni. Í fjárlögum 2021 er gert ráð fyrir rétt tæpum 14 milljörðum á verðlagi 2021 í barnabætur árið 2023. Það eru settir rétt tæpir 14 milljarðar í fjárlög 2023, núna. En með þessum breytingum o.s.frv. sem er verið að kynna — við vitum ekki alveg heildarupphæðina en hún lítur út fyrir að vera í rauninni nákvæmlega verðlagsuppfærð miðað við upphæðina sem var gert ráð fyrir í fjárlögum 2021. Við erum að tala um óbreytt kerfi. Við erum bara að tala um þessar nauðsynlegu kerfisbreytingar sem þarf að gera til að viðhalda þeirri upphæð sem ríkisstjórnin var búin að segja okkur að ætti að fara í barnabætur árið 2021. (Forseti hringir.) Þetta er ekki viðbót, þetta er viðhald.