Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða eingreiðslu til öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega og það er flott. Þetta er bara besta mál. En það sem við erum að reyna að koma fólki í skilning um eru þessir eineltistilburðir hvað eftir annað þar sem við tökum út ákveðinn hóp. Jú, við erum að gera vel við hann, en af hverju skiljum við þá eftir verst settu ellilífeyrisþegana? Hvaða rök getum við gefið fyrir því að skilja eftir fólk sem er jafnvel verr statt en öryrkjar? Einu rökin sem ég hef heyrt fyrir því eru að það gætu verið þarna inni einhverjir sem eiga ríkan maka eða einhverjar svona fáránlegar ástæður sem bara virka ekki. Þess vegna verðum við líka að koma því að að við erum að berjast fyrir alla sem eru í slæmri stöðu og við viljum helst að allir fái. Hættum að vera alltaf að skilja einhverja eftir. Tökum utan um þá allra verst stöddu. (Forseti hringir.) Það eru ekki miklir peningar í viðbót sem þarf til að redda því.