Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:51]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (eingreiðsla), sé mikilvægt mál og ég styð það heils hugar. Það er mikilvægt að þeir sem eiga rétt á greiðslu örorkulífeyris, skv. 18. gr., og endurhæfingarlífeyris, skv. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, á árinu 2022 fái eingreiðslu að fjárhæð 60.300 kr. Þetta er mjög mikilvægt réttlætismál. Í fyrra var þessi fjárhæð til öryrkja 53.000 kr. eingreiðsla og hér er um tekjulægsta hóp samfélagsins að ræða. Það er einnig tekið fram í frumvarpinu að hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skuli eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Þessi eingreiðsla skal innt af hendi eigi síðar en 31. desember og skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna. Það er því mikilvægt að við afgreiðum þetta mál nú fyrir áramót svo að við getum komið þessum greiðslum til skila.

Þetta er breytingartillaga. Upphaflega var í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið í ár gert ráð fyrir 650 millj. kr. í einskiptisframlag til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og þá var miðað við að greiðslurnar væru 27.772 kr., eingreiðslur til einstaklings sem hefur verið með réttindi allt árið. Hér er verið að bæta í og meira en tvöfalda þessa fjárhæð. Hún fer úr 27.772 kr. upp í 60.300 kr. og miðast líka við hlutfall, þ.e. ef öryrki hefur bara fengið hlutabætur á ári fái hann greitt í hlutfalli við greiðsluréttindin. Formaður Flokks fólksins, hv. þm. Inga Sæland, lagði til breytingartillögu þessa efnis við frumvarp til fjáraukalaga sem fór inn í fjárlaganefnd og við getum sagt að þetta sé barnið sem varð til úr því, úr þeirri baráttu. Vissulega hefur Öryrkjabandalagið líka bent á þetta og fleiri hagsmunasamtök en þetta er sama tala, 300 kr. hærri, en breytingartillaga hv. þm. Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, hljóðaði upp á.

Í frumvarpinu segir:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að kveðið verði á um það í ákvæði til bráðabirgða að eingreiðslan skuli ekki teljast til tekna greiðsluþega, og teljist þannig skattfrjáls, og að hún skuli ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.“

Hér kveður við nýjan tón þar sem örorkubætur hafa í dag verið skertar vegna atvinnutekna, vegna lífeyrisgreiðslna og annarra tekna úr séreignarsjóðum til öryrkja. Það er mjög mikilvægt að þetta er skatta- og skerðingarlaust, eins og hér var sagt og eins og það heitir á góðri íslensku.

Ég held að þetta mál muni hljóta farsælan endi hér í þinginu þó svo að við viljum tala um það eins og önnur mikilvæg mál. Þessi breyting er vonandi komin til að vera, að öryrkjar, sem eru tekjulægsti hópur samfélagsins, fái þessa eingreiðslu í framtíðinni. Ég get þó ekki stillt mig um það — eins og þessi tillaga er góð og mikilvæg — að nefna að hópur fólks, sem var undir 67 ára aldri í fyrra, fékk 53.000 kr. í eingreiðslu i fyrra. Það fólk er í dag orðið 67 ára gamalt, einu ári eldra en í fyrra eins og við öll. Við verðum öll einu ári eldri með hverju árinu sem líður, svo einfalt er það. Þeir einstaklingar sem hafa náð 67 ára aldri fá ekki þessa eingreiðslu. Þeir öryrkjar sem fengu rúmar 53.000 kr. í fyrra fá ekki þessar 60.300 kr. í ár. Af hverju? Jú, af því að þetta fólk átti afmæli á árinu og varð 67 ára. Það þýðir, skv. 17. gr. laga um almannatryggingar, að fólk fer af örorkubótum og fær ellilífeyrisbætur, verður ellilífeyrisþegar. Þessi hópur fær ekki bætur, fær ekki eingreiðslur og það er mjög sorglegt. Þetta er allra tekjulægsti hópurinn. Þegar þú ferð af örorkubótum yfir á ellilífeyrisbætur, verður ellilífeyrisþegi, þá lækka bæturnar þínar. Formaður Flokks fólksins, hv. þm. Inga Sæland, hefur komið með breytingartillögu, sem við greiddum atkvæði um í gær, um eingreiðslur til aldraðra. Af hverju? Af því að það þarf að vera sanngirni milli þess fólks sem er yngra en 67 ára og eldra en 67 ára. Nú verðum við öll einu ári eldri með hverju árinu sem líður en það er algerlega óásættanlegt að öryrkjar sem eru orðnir 67 ára fái ekki þessa eingreiðslu eins og þeir sem eru einu ári yngri. Það er mjög ósanngjarnt og það eru engin rök fyrir því. Það má meira að segja halda því fram að meiri rök séu fyrir því að ellilífeyrisþegar, þeir sem eiga rétt á greiðslu ellilífeyris, eigi að fá þessa eingreiðslu vegna þess að þeir eru verr settir en hinir. Þetta er fátækasti hópur samfélagsins, bæði öryrkjar og jafnvel líka konur sem hafa ekki greitt í lífeyrissjóð á lífsleiðinni, verið heimavinnandi, alið önn fyrir heimili og börnum. Þetta fólk hefur engan rétt í lífeyrissjóði, sama og engan, ekki nema hafa farið hluta af starfsævinni út á vinnumarkaðinn. Þá er mikilvægt að við tökum utan um þennan hóp, bæði öryrkja sem eru 67 ára og líka þann hóp sem eingöngu lifir á almannatryggingabótum, fær eingöngu bætur. Þetta er tekjulægsti hópur samfélagsins, allra tekjulægsti hópur samfélagsins. Það sem meira er, ef öryrkjar fara út á vinnumarkaðinn verða þeir fyrir hinni margræddu tekjuskerðingu. Í fyrra var frítekjumark fyrir aldraða hækkað í 200.000 kr. sem var mjög vel, það var mjög gott. En Flokkur fólksins og aðrir stjórnarandstöðuflokkar voru með tillögu um að þetta næði líka til öryrkja. Því höfnuðu ríkisstjórnarflokkarnir. Af hverju veit ég ekki. Þeir höfnuðu því að hækka frítekjumark í fjárlagaumræðunni í fyrra upp í 200.000 kr. Það er svona að vera í minni hluta, þetta situr í manni. En nú í ár koma ríkisstjórnarflokkarnir og eru með breytingartillögu um það að öryrkjar fái hækkun frítekjumarks upp í 200.000 kr., sama tillaga og stjórnarandstöðuflokkarnir og Flokkur fólksins voru með í fyrra er komin fram hjá þingmeirihlutanum og það hefur ekkert breyst. Það eina sem hefur breyst í lífinu og tilverunni er það að 12 mánuðir hafa liðið. Við fögnum því að sjálfsögðu að ríkisstjórnarflokkarnir taki undir tillögu Flokks fólksins og stjórnarandstöðuflokkanna um 200.000 kr. frítekjumark, það er mjög mikilvægt.

Nú erum við líka með tillögu. Tillagan í fyrra var samþykkt frítekjumark fyrir aldraða, 200.000 kr., en því var hafnað að sama tillaga næði til öryrkja, sem kemur núna, það er gott. Sú tillaga sem hér er til umræðu verður eiginlega, sé allrar sanngirni gætt, að ná líka til þeirra sem hafa óskertan ellilífeyri almannatrygginga, að þeir fái líka eingreiðsluna, að þeir sem eru orðnir 67 ára og eldri fái líka eingreiðsluna. Það er það sem þetta snýst um. Það eru nákvæmlega sömu forsendur fyrir því, nákvæmlega sömu rök. Þetta er sami hópurinn, bara einu ári eldri. Allir sem hér eru inni og eru að hlusta vita að fólk verður einu ári eldra með hverju árinu sem líður, það er eina breytingin. Því eldri sem maður er finnur maður lítinn mun á árunum, sérstaklega þegar maður er kominn á miðjan aldur. Ég get ekki skilið að við séum ekki að veita eingreiðslu til hópsins yfir 67 ára aldri.

Breytingartillaga formanns Flokks fólksins, hv. þm. Ingu Sæland, við frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar (eingreiðsla), er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Við 1. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þeir einstaklingar sem eiga rétt á greiðslu ellilífeyris skv. 17. gr. á árinu 2022 og hafa óskertan ellilífeyri almannatrygginga skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 60.300 kr. Hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi, sem skal innt af hendi eigi síðar en 31. desember 2022, skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.“

Svo mörg voru þau orð. Þessi breytingartillaga er nákvæmlega sami texti og varðandi öryrkjana og varðandi þá sem eiga rétt á greiðslu til örorkulífeyris, hér er bara óskað eftir því að þeir einstaklingar sem eiga rétt á greiðslu ellilífeyris fái líka eingreiðslu. Munurinn er þessi: Þeir sem eiga rétt á greiðslu örorkulífeyris, það er það mál sem við erum að ræða hér, og verður vonandi samþykkt samhljóða — Flokkur fólksins leggur til að það sama gildi um þá einstaklinga sem eiga rétt á greiðslu ellilífeyris og hafi óskertan ellilífeyri almannatrygginga, að þeir skuli fá 60.300 kr. fyrir jólin.

Hvað er þetta stór hópur? Hvað eru þetta margir einstaklingar? Á árinu sem nú fer bráðum að renna sitt skeið, fer bráðum að ljúka, á árinu 2022, er útlit fyrir að 2.080 hefðbundnir ellilífeyrisþegar hafi verið með tekjur frá öðrum en TR undir almennum tekjumörkum, þ.e. 300.000 kr., og sérstökum frítekjumörkum atvinnutekna, 2,4 millj. kr. á ári. Hópurinn er sem sagt 2.080 manns sem við erum að tala um hér sem munu fá þetta. Að meðaltali voru þeir óskertir í rúma 11 mánuði, þ.e. þeir fengu, eins og segir í breytingartillögunni, óskertan ellilífeyri almannatrygginga. Að meðaltali voru þeir óskertir í rúma 11 mánuði. Af þeim höfðu 1.032 einstaklingar einhvern tíma verið á örorku áður, þ.e. bróðurparturinn. Flestir munu hafa farið beint á ellilífeyri af örorkubótum. Þessi hópur eru 1.032 einstaklingar sem urðu 67 ára sem fá ekki eingreiðslu örorkulífeyris. Við leggjum til að þessir 1.032 einstaklingar fái líka eingreiðsluna. Þessar skerðingar á ellilífeyri eiga sér þrenns konar uppruna, það er tekjuskerðing, það er búsetuskerðing, það er lækkun vegna snemmtöku, þeir sem fara á lífeyri fyrir 67 ára aldur. Það eru þessar skerðingar sem eru hér undir. En að við skulum ekki geta hjálpað þessum 2.000 manns og þar af 1.032 einstaklingum sem þáðu örorkulífeyrisbætur áður en þeir urðu 67 ára finnst mér algjört hneyksli. Það er óréttlæti gagnvart þessum hópi, 1.032 einstaklingum. Þetta er allt fólk. Þetta er tala sem ég tala um en þetta eru allt einstaklingar sem eru í tekjulægsta hópi samfélagsins, 1.032 einstaklingar. Hver er kostnaðurinn við það að veita þeim eingreiðslu og líka þessum 2.080 einstaklingum? Jú, það eru 125 millj. kr., sem við erum að fara fram á að ríkissjóður láti 2.080 einstaklinga fá. Þar af er helmingurinn sem var á örorku í fyrra, er bara kominn á ellilífeyrisbætur. Þetta eru smápeningar í tölunum (Forseti hringir.) sem við erum að tala um í fjárlaganefnd. Þetta eru algjörir smápeningar, þetta er langt innan skekkjumarka og það er alger skömm fyrir þessa stofnun að við skulum ekki líka láta þá fá eingreiðsluna.