Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[17:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir ræðuna. Hann var að tala um að dropinn holi steininn. Mig langar eiginlega fá upplýsingar um hvort honum finnist ekki skrýtið í þessu samhengi að við séum að finna út þann hóp sem hefur það verst í þessu þjóðfélagi og samfélaginu. Við erum búin að kortleggja þarna að endurhæfingarlífeyrisþegar og öryrkjar fái þessa 60.300 kr. skatta- og skerðingarlaust, sem er auðvitað engin ofrausn. Eins og ég hef áður sagt ættum við eiginlega bara að hafa þetta í hverjum einasta mánuði það sem eftir er og það væri heldur ekki nein ofrausn. En við erum bara að biðja um eingreiðslu og bæta við eingreiðslu handa verst settu eldri borgurunum. Þar er undir til að mynda fólk sem er í búsetuskerðingum og er með 10% minna en lægstu ellilífeyrislaunin eru í dag plús krónu á móti krónu skerðingu. Nú veit hann eins og ég að allir flokkar lofuðu að taka út krónu á móti krónu skerðingu og það var ekki fyrir síðustu kosningar heldur þar áður. Hún er orðin 65 aurar á móti krónu hjá örorkulífeyrisþega, hún er farin út hjá á ellilífeyrisþegum. En einhvern veginn tókst þeim að finna út að þessi hópur, verst setti hópur allra í kerfinu, ætti áfram að vera með krónu á móti krónu skerðingu. Ég spyr hv. þingmann: Er það kannski þar sem dropinn holar steininn, að við höldum áfram og vonum að það skili því (Forseti hringir.) að þessi króna á móti krónu skerðing verði tekin í burtu og 65 aurar á móti krónu skerðing verði helst tekin í burtu líka?