Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[17:15]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, dropinn holar steininn. Við berjumst og berjumst fyrir réttlætinu en það virðist vera sem ríkisstjórnarflokkarnir séu ekkert endilega of uppteknir af réttlætinu. Þau eru ekkert of upptekin af því hvernig ástandið er hjá fólki og þau eru heldur ekkert að hlusta þegar við erum að reyna að segja þeim hvernig ástandið er hjá fólki því að samkvæmt þeirra bókum líður fólki að meðaltali ágætlega. Það er náttúrlega stórhættulegt að við sem erum í stjórnarandstöðu séum að koma með hugmyndir um það hvernig hægt sé að bæta ástandið fyrir þetta fólk vegna þess að þá fáum við kannski einhverjar þakkir fyrir að hafa hjálpað fólkinu á meðan markmiðið hjá ríkisstjórninni er voða einfalt: Þau vilja líta út fyrir að vera þau góðu, þau sem gera allt fyrir alla en gera samt ekki neitt fyrir neinn. Þetta með hver fær þakklætið, hver fær viðurkenninguna, ég held að öryrkjar og aldraðir viti alveg hver berjast fyrir þau hér inni á þingi. Þó svo að það komi einhverjar krónur hér og þar frá ríkisstjórnarflokkunum þá er það bara vegna þess að við erum búin að sparka nógu fast, nógu oft í nógu mörg ár.