Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[17:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni, 13. þm. Suðvest., fyrir góða ræðu, ástríðuþrungna ræðu. Ég veit ekki hvort ég þori að hrósa honum meira eða veita honum meira hól. Honum finnst ekki gaman að fá hól, sagði hann í andsvörum hérna rétt áðan, en ég get bara ekki setið á mér og vil hrósa honum fyrir þessa umræðu sem hann tekur þátt í, sem er mjög mikilvæg. Við erum að fjalla hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, eingreiðslu, um það að þeir sem eiga rétt á greiðslu örorkulífeyris á árinu 2022 skuli fá eingreiðslu að fjárhæð 60.300 kr. Af hverju eigum við ekki að veita þessa eingreiðslu líka til þeirra sem eru 67 ára á árinu? Ég á erfitt með að skilja það. Af hverju ekki? Hver eru rökin fyrir því? Hér er um að ræða tekjulægsta hóp ellilífeyrisþega sem hefur svo lágar tekjur að þær leiða ekki til skerðingar á ellilífeyri þeirra, þ.e. undir 25.000 kr. á mánuði. Tekjurnar eru það lágar að það leiðir ekki til skerðingar á ellilífeyri undir 25.000 kr. á mánuði. Hver eru rökin? Ég hef ekki fundið þessi rök. Ég hef verið að pæla í þessu lengi. Getur hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson, sem hefur sett sig vel inn í málið, sagt mér hver rökin eru fyrir því? Ég veit ekki hver þau eru. Í 17. gr. segir að við 67 ára aldur fari öryrki yfir á ellilífeyrisgreiðslur og þetta eru 1.032 einstaklingar sem eru á örorku og fara beint af örorkubótum yfir á ellilífeyri. Samanlagt væru það 2.080 einstaklingar sem við myndum greiða 60.300 kr. ef við myndum samþykkja það að ellilífeyrisþegar fengju líka eingreiðsluna.