Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[17:29]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingheimur og kæra þjóð. Það hefur ýmislegt verið rætt hérna í pontu í dag. Það hefur m.a. verið talað um heiðarleika. Mér dettur í hug að það var þekktur amerískur þjálfari sem var uppi um miðja síðustu öld sem hét Vince Lombardi. Hann sagði: Heiðarleiki er ekki besti kosturinn, heiðarleiki er eini kosturinn. Mér datt í hug að segja þetta að gamni. Það hefur líka verið talað um það hver eigi hugmyndina, hver fái hólið og lofið fyrir að hafa komið með einhverja hugmynd. Þekktur kaupsýslumaður sem nú er látinn, Steve Jobs sem stofnaði og rak Apple, sagði, með leyfi forseta: „We steal shamelessly“. Eða: Við stelum hugmyndum án nokkurrar samvisku. Það má segja að það skipti ekki máli hvaðan góð hugmynd kemur. Mér dettur í hug að gamni: Þeir njóta sjaldan eldanna sem fyrstir tendra þá. Þannig er að 1993 kom ég hingað til Íslands með fyrsta sushi-matreiðslumanninn sem kom frá New York, Japani sem hafði verið þar árum saman að elda sushi. Ég var með sushi á matseðlinum á Hótel Borg en ég seldi nánast ekkert sushi. Núna getur maður varla komið í nokkra veislu eða á nokkurn veitingastað öðruvísi en að það sé verið að selja sushi úti um allt. Ég átti sem sagt fyrst hugmyndina að þessu en ég nýt ekki þeirra elda, því miður. Svona er lífið.

Það var talað um Warren Buffet. Ég fer bara úr einu í annað, tala um það sem ég hef heyrt hérna í dag í pontu. Hann var og er mjög frægur maður, kominn á níræðisaldur og einn af ríkustu mönnum heims. Hann var spurður að því einu sinni af hverju hann keypti alltaf í fyrirtækjum eða ræki fyrirtæki eða réði til fyrirtækja sinna eldri einstaklinga til að stjórna, keypti fyrirtæki sem eldri einstaklingar stjórnuðu. Hann stjórnar mörgum fyrirtækjum og passar sig á því að hafa alltaf fullorðna einstaklinga við stjórnvölinn. Hann var spurður að því hvernig stæði á því og hann sagði, með leyfi forseta: „It is so difficult to teach young dogs old tricks.“ Það er af því að unga fólkið tekur ekki mark á því sem við eldri mennirnir segjum. En þetta hefur heppnast vel hjá honum og fyrir vikið er hann einn af ríkustu mönnum heims.

Sá fjöldi ellilífeyrisþega sem um ræðir, sem við viljum að fái eingreiðsluna upp á 60.300 að auki, eru einhvers staðar í kringum 2.080, kannski plús mínus eitthvað. Helmingur þeirra var öryrkjar áður en þeir urðu löggiltir eldri borgarar. Öryrkjar fá svokallaða aldurstengda uppbót sem getur numið allt að 54.000 á ári eftir því hversu ungir þeir voru þegar þeir urðu öryrkjar, því yngri sem þeir voru, þeim mun hærri er uppbótin vegna þess að þeir eru búnir að vera öryrkjar lengi. Svo allt í einu verða þeir 67 ára og þá kemur einhver ósýnilegur maður og segir: Tak sæng þína og gakk. Þú ert ekki lengur öryrki. Hvar er þessi manneskja sem getur sagt þetta við öryrkja í dag? Ég vil fá að sjá hana.

Hvað vil ég segja meira? Ég vil segja, virðulegi forseti, að það er fagnaðarefni að þingheimur hafi náð saman um eingreiðslu að fjárhæð 60.300 til öryrkja sem skal greidd út fyrir áramót skatta- og skerðingarlaust. Þessi fjárhæð mun svo sannarlega skipta sköpum í lífi margra. Engu að síður vil ég minna á að þingheimur hefur ekki náð saman um svipaðan stuðning til þeirra öryrkja sem hafa náð 67 ára aldri, þ.e. ellilífeyrisþega sem hafa svo lágar tekjur að þeir fá óskertan ellilífeyri almannatrygginga.

Inga Sæland lagði fram breytingartillögu við 2. umr. þessa frumvarps sem hljóðaði svo:

„Við 1. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þeir einstaklingar sem eiga rétt á greiðslu ellilífeyris skv. 17. gr. á árinu 2022 og hafa óskertan ellilífeyri almannatrygginga skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 60.300 kr. Hafi lífeyrisþegi fengið greiddar bætur hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi, sem skal innt af hendi eigi síðar en 31. desember 2022, skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.“

Greinargerðin með breytingartillögunni hljóðaði svo:

„Lagt er til að tryggja þeim ellilífeyrisþegum sem fá á árinu 2022 óskertan ellilífeyri almannatrygginga sambærilega eingreiðslu og mælt er fyrir um í 1. gr. frumvarpsins til öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega. Um er að ræða tekjulægsta hóp ellilífeyrisþega sem hafa svo lágar lífeyristekjur að þær leiða ekki til skerðingar á ellilífeyri þeirra, þ.e. undir 25.000 kr. á mánuði.“

Þessi breytingartillaga hefur vafist eitthvað fyrir stjórnarþingmönnum og kusu þeir að greiða atkvæði gegn henni í gær. Eins og þið heyrðuð, kæra þjóð, var hér nafnakall og maður heyrði hvíslað þegar menn sögðu nei, af því að þeir skömmuðust sín fyrir segja nei við þessari tillögu. Þetta er nánast mannvonska, að geta ekki séð af þessum fáu krónum til þeirra sem virkilega þurfa á því að halda. Eitthvað kom til tals að óvissa ríkti um hve margir ellilífeyrisþegarnir eru sem tilheyra þeim hópi sem breytingartillagan afmarkast við. En við í Flokki fólksins könnuðum það hjá Tryggingastofnun til að geta upplýst þingheim. Mér er sönn ánægja að upplýsa þingheim um svar Tryggingastofnunar: Á árinu er útlit fyrir að um 2.080 hefðbundnir ellilífeyrisþegar hafi verið með tekjur frá öðrum en Tryggingastofnun ríkisins undir almennum tekjumörkum, þ.e. 300.000 kr. á ári. Þetta eru smáaurar í stóra dæminu. Ég minni á að hér í gær voru greidd atkvæði um 1.100 milljarða fjárlög ríkisins. Við erum að tala um hérna skitnar 125 milljónir.