Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[17:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú förum við að ljúka umræðu um þetta frábæra mál um að greiða 60.300 kr. skatta- og skerðingarlaust til örorkulífeyris- og endurhæfingarlífeyrisþega. Eins og hv. þingmaður kom inn á þá erum við að reyna að berjast fyrir þennan hóp fólks, sem er jafnvel stór, sem hefur líka verið öryrkjar allt sitt líf og verið á aldurstengdri uppbót. Þeir detta inn í ellilífeyriskerfið og skerðast þar vegna þess að þeir missa allan rétt sem þeir höfðu í örorkulífeyriskerfinu en fá nýjan rétt í ellilífeyriskerfinu sem er oft mun verri en sá réttur sem þeir voru með. Það er auðvitað alveg fáránlegt vegna þess að ef þú ert búinn að vera með glíma við veikindi alla þína tíð og verður ellilífeyrisþegi þá verður þú að mörgu leyti bara verr staddur, allra síst betur staddur, ég held að það sé hrein og klár undantekning ef svo er.

En það er annað í þessu sem maður hefur oft heyrt og það er sú bábilja að þeir sem eru í almannatryggingakerfinu fái — ég sá að það segir inni á vef Tryggingastofnunar að í ellilífeyriskerfinu fái fólk 104.000 kr. á ári í orlofs- og desemberuppbót. Þetta eru auðvitað ótrúlega villandi upplýsingar vegna þess að það stóð hvergi þarna að fyrir mann sem er nýkominn inn í kerfið og þekkir ekki kerfið — þegar hann færi að lesa þetta þá myndi hann segja: Já, ókei, ég fæ þarna þennan pening, orlofið á sumrin og desemberuppbótina í desember. Það er ekki svo einfalt. Það gleymist að taka inn í dæmið allar skerðingar eða keðjuverkandi skerðingarnar sem geta valdið því að þessi fjárhæð skerðir í fyrsta lagi allar tekjur, skattskyldar tekjur. Þess vegna erum við að biðja um 60.300 kr. skatta- og skerðingalaust. Í öðru lagi: Því meiri tekjur sem þú hefur, því minna færð þú af þessu.

Ég man það þegar ég var í þessu kerfi þá mátti ég að þakka fyrir að það væri 3.000 eða 4.000 kall sem þetta skilaði mér á vorin og um jólin. Það voru nú öll ósköpin. Og stór hópur fær ekki neitt. Þannig að uppsetningin á þessu kerfi — þetta er nefnilega dæmi til að sýna ykkur hvernig uppsetningin á kerfinu er. Þarna er sagt að þetta sé sú upphæð sem allir fái, sem er auðvitað kolrangt. Það er ekki nema brotabrot sem fær hana óskerta, hinir fá hana alveg skerta í spað. Þetta gildir í sjálfu sér um allt kerfið og flesta flokka. Og þessi jólabónus, það er ekki nóg með að að hann skerði innan kerfisins, innan almannatryggingakerfisins, heldur skerðir hann út fyrir það, hann skerðir sérstakar húsaleigubætur í félagsbótakerfinu.

Hversu langt er hægt að ganga gagnvart fólki til þess að reyna einhvern veginn að plata það, klekkja á því? Við erum ekki að tala um einhverja sem eru með 80, 90 milljónir á mánuði í laun, við erum að tala um fólk sem á ekki til hnífs og skeiðar, liggur við. Það má þakka fyrir það geti haft húsnæði. Eins og hefur komið fram hérna í umræðunni þá geta sumir ekki einu sinni ráðið við að greiða fyrir húsnæðið sitt af því að leigan er komin upp úr öllu valdi og þeir eru komnir í bílinn sinn eða í hjólhýsi. Þannig að við erum að reyna að berjast fyrir því að allir sem eru illa staddir fái þetta. Ég get ekki séð að það sé erfitt að átta sig á því að einstaklingur sem býr í hjólhýsinu í Laugardalnum þurfi ekki líka að fá 60.300 kr. eingreiðslu sem einstaklingur sem er að reyna að lifa á rétt rúmum 200.000 kr. útborguðum. Það er gjörsamlega óskiljanlegt. Þess vegna vona ég heitt og innilega að ríkisstjórnin sjái nú ljósið, jólaljósin allt í kring, það er nóg af þeim, og það verði til þess að þeir geri eitthvað í málinu.