Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[17:49]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þetta er skref í rétta átt, það er nokkuð ljóst. Öryrkjar hafa verið með þetta svokallaða frítekjumark, 109.000 kr., síðan eftir hrun. Það var ráðist á þau og þau skert og þessu frítekjumarki var komið á, krónu á móti krónu skerðingu var komið á, grunnframfærsla þeirra var lækkuð. Loforðið var það að þau myndu fá leiðréttingu á því innan skamms. Síðan eru liðin allmörg ár, 13 ár, og loksins núna erum við að sjá þessa breytingu, 200.000 kr. frítekjumark, sem við skulum vona að sé það vel ígrunduð hjá hæstv. velferðar- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, að það eigi ekki eftir að bíta einhvern illa að treysta á frítekjumarkið án þess að vera skertur. Ég held að fólk átti sig ekki á því að allt sem heitir sérstök framfærsluuppbót og annað slíkt, þetta þurrkast bara út, það verður ekki um neitt slíkt að ræða. Ef þessar 109.000 kr. hefðu fylgt launaþróun þá væri þetta frítekjumark núna hátt í 300.000 kr.

Þetta er þó skref í rétta átt og vonandi bara fyrsta skrefið. Það ber að þakka það sem vel er gert. Þangað til annað kemur í ljós er ég þakklát fyrir þetta, virkilega.