Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[18:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, en frumvarpið fjallar um frítekjumark og skerðingarhlutfall. Ég vil byrja örsnöggt á þeim þætti sem ég ræddi í andsvari við hv. þm. Guðmund Inga Kristinsson hér á undan er varðar það með hvaða hætti horft er til útgjalda og tekna af frumvarpi sem þessu. Þetta er einhvers lags bastarður, — afsakið orðalagið, frú forseti — sú nálgun sem viðhöfð er í tengslum við lög um opinber fjármál þar sem horft er til kostnaðar ríkissjóðs af máli sem þessu sem hins tapaða sparnaðar af skerðingum þeirra sem bæturnar hljóta. Það er hreinlega eitthvað ónotalegt við þá nálgun. Þetta er af sama meiði og þessi furðulega nálgun fjármálaráðuneytisins um þann flokk í fjárlögum sem kallast, ef ég man rétt, skattstyrkir sem er allt öðruvísi útfært en lög um opinber fjármál leiða út.

Það er rétt að halda því til haga að þetta frumvarp er til bóta frá núverandi stöðu. En það að stoppa þarna — ég verð að spyrja: Hvers vegna er það? Af hverju að stoppa við 200.000 kr. þegar svo augljóst er að tekjurnar, sparnaðurinn í öllum þeim velferðarkerfum sem við búum við og annað þess háttar, verða svo augljóslega miklu hærri en tapið af sparnaðinum við skerðingarnar mun fela í sér enda er það í raun ekki neitt heldur bara leikur að tölum?

Fyrir síðustu alþingiskosningar lagði Miðflokkurinn til umtalsverða hækkun á þessu viðmiði. Ég fletti því ekki upp en mig minnir að það hafi verið 500.000 kr., talan hér er 200.000 kr. á mánuði. Við eigum að leyfa fólki að vinna. Fólk sem getur og vill vinna, hvort sem það á við örorku að glíma eða er orðið aldrað — það er svo mikill akkur í því fyrir samfélagið að auka virkni þessara hópa að það er mikið til þess vinnandi að hafa hvatann sem mestan. Óskastaðan væri sú að mögulegt væri að trappa niður örorkumat ef kæmi á daginn að fólk réði við það að sinna störfum í meira mæli en mat hvers og eins gefur tilefni til að ætla.

Eins og segir í 2. gr. frumvarpsins er horft til þess að frítekjumarkið fari úr 1.315.200 kr. á ári í 2,4 millj. kr. sem eru 200.000 kr. á mánuði. Þetta varðar annars vegar skerðingarhlutfall tekna við útreikning á örorku- og endurhæfingarlífeyri og hins vegar sérstakt frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar.

Það hefur, eins og við þekkjum, ítrekað komið fram að hvata skortir í gildandi lífeyriskerfum til þátttöku á vinnumarkaði, m.a. vegna samspils skatta, bóta og annarra tekna lífeyrisþega. Þetta eru atriði sem ég held að öllum hér í þessum þingsal séu ljós en það hefur verið alveg ótrúlega erfitt að koma þessu til betri vegar. Það viðmið sem hér er lagt til, leyfi ég mér að segja, er smánarlega lágt. Við eigum að auka þetta frelsi miklu meira. Áhættan í því er hverfandi, í raun engin. Það gerist ekkert annað en það að þetta dregur úr hvata til svartrar atvinnustarfsemi þar sem fólk er mögulega tryggingarlaust og annað þrátt fyrir að vera raunverulega að sinna starfi sem felur í sér hverjar þær hættur sem kunna að vera á vettvangi.

Í 1. lið greinargerðar frumvarpsins er sagt, með leyfi forseta:

„Efni frumvarpsins styður það sem fram kemur í sáttmála ríkisstjórnarinnar um að gera örorkulífeyriskerfi almannatrygginga gagnsærra, einfaldara og skilvirkara.“

Hvorug þessara breytinga gerir það raunverulega. Þetta er bara annars vegar breyting á skerðingarhlutfalli, úr 11% í 9%, það er engin einföldun í því. Vissulega er til bóta þessi lækkun skerðingar, en það er engin einföldun, þetta er bara eitthvert orðskrúð í greinargerðinni. Hins vegar er um að ræða hækkun úr 1.315.200 kr. á ári upp í 2,4 millj. kr. Það er engin einföldun í þessu, ekki nein. Ég held að það væri margra hluta vegna til bóta ef ríkisstjórnin tæki sig til og legði fram frumvarp sem gerði örorkulífeyriskerfi almannatrygginga raunverulega gegnsærra, einfaldara og skilvirkara. Ég held að það væri til mikilla bóta. En þetta frumvarp fjallar ekki um það, bara alls ekki. Eins og í svo mörgu sem við fjöllum um hér á Alþingi verða þetta svo miklar umbúðir um oft litlar aðgerðir. Þó að ég ítreki að þessi aðgerð sé til bóta er hún miklu minni en skynsamlegt væri að ganga til og kostnaðurinn auðvitað hverfandi ef nokkur. Ég held raunar að ríkissjóður kæmi út í hagnaði með því að hafa viðmiðunarmörkin miklum mun hærri en hér er fjallað um.

Mig langaði að fara sérstaklega í 6. lið greinargerðarinnar sem er mat á áhrifum. Ég er sérstakur áhugamaður um þá grein í frumvörpum hverju sinni, þ.e. þetta mat á áhrifum, fjárhagslegum fyrst og fremst. Þessi kafli byrjar, með leyfi forseta, á orðunum: „Til að leggja mat á kynjamuninn er notað tíu ára meðaltal“. Bíddu, hvað kemur kynjamunur þessu máli við? Það sem hefur eflaust gerst þarna er að þeir sem fengu það erfiða verkefni að skrifa greinargerð með frumvarpinu hafa hugsað með sér: Heyrðu, ráðherrarnir okkar eru búnir að tala um það í svo mörg ár að það sé svo mikill kostnaður af því að tapa sparnaðinum á skerðingunni að við getum ekki gengist við því svona alveg beint þannig að við skulum bara tala um eitthvað annað í mati á áhrifum en það sem á að standa í mati á áhrifum. Ég hef bara aldrei séð neitt þessu líkt. Hvað í veröldinni hefur mat á kynjamuni tíu ár aftur í tímann að gera með þetta frumvarp? Bara ekki neitt. En þarna hafa menn væntanlega fundið sig í þeirri stöðu að þeir treystu sér ekki til að skrifa það sem rétt er í þessu, þ.e. að frumvarp sem þetta kostar ekki neitt, skilar bara plús. Menn hafa það bara ekki í sér að skrifa það og skrifa þá bara einhverja vitleysu í staðinn.

Virðulegur forseti. Hér er furðusetningin, með leyfi forseta:

„Þau sem hafa hærri tekjur en sem nemur núverandi frítekjumarki hafa fjárhagslegan hag af hækkun frítekjumarksins“ — Já, það er þannig. — „og einnig þau sem myndu reyna fyrir sér á vinnumarkaði í kjölfar þessarar hækkunar.“

Þetta bendir allt til þess að sá aumingja embættismaður sem fékk það verkefni að skrifa 6. lið greinargerðarinnar hafi verið í stökustu vandræðum af því að dagskipunin hefur verið sú að ekki mætti gangast við því að frumvarpið kostaði ekki neitt. Ég bara fullyrði að það er það eina sem getur skýrt svona furðukafla í greinargerð þessa frumvarps.

Það er annað í þessu sem ég vil leyfa mér að nefna. Undir nefndarálit með breytingartillögu frá meiri hluta velferðarnefndar rita Líneik Anna Sævarsdóttir, formaður nefndar og framsögumaður málsins, Ásmundur Friðriksson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hafdís Hafsteinsdóttir, Jódís Skúladóttir, Lenya Rún Karim, Oddný G. Harðardóttir og Óli Björn Kárason. Mér sýnist það vera allir nema fulltrúar Flokks fólksins sem skrifa undir þetta nefndarálit og ég fæ það staðfest hér í salnum eins og þeir sjá sem eru að horfa. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þá vill meiri hlutinn vekja athygli á að frumvarpið inniheldur skref í átt að nýju greiðslukerfi vegna starfsgetumissis en gert er ráð fyrir að frekari breytingar á kerfinu verði innleiddar í áföngum á næstu misserum.“

Hvar er þetta að finna? Þetta er einfaldasta frumvarp sem ég hef séð, þetta eru tvær greinar. Með leyfi forseta ætla ég að lesa þær, þær eru svo stuttar.

1. gr. hljóðar svo:

„Í stað „11%“ í 2. málsl. 5. mgr. 18. gr. laganna kemur: 9%.“

2. gr. hljóðar svo:

„Í stað „2022“ og „1.315.200 kr.“ í 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 2023; og: 2.400.000 kr.“

Þar með er það búið. Þetta er allt sem stendur í þessum lögum. Þótt hv. framsögumaður sé vissulega nokkuð bundinn í öðrum störfum akkúrat núna eru það mögulega fleiri nefndarmenn sem skrifa undir þetta álit sem eru að hlusta. Mér þætti vænt um að vita: Hvar í þessu örstutta frumvarpi, í tveggja greina frumvarpi, finnst því staður að frumvarpið innihaldi skref í átt að nýju greiðslukerfi vegna starfsgetumissis? Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson getur kannski upplýst okkur um það hér í seinni ræðu, komi hann í slíka, en það stendur alla vega ekki hérna. Í nefndaráliti með breytingartillögu er vísað til hluta sem standa ekki í frumvarpinu og í frumvarpinu, í 6. lið, eru atriði sem fjalla um allt annað en frumvarpið. Þetta er einhver furðuleg nálgun og eiginlega alveg ótrúlegt að menn þurfi að fara í svona æfingar með mál sem er í grunninn gott.

Það er verið að draga úr skerðingum og hækka frítekjumark þó að mín skoðun sé sú að frítekjumarkið hefði átt að hækka miklu meira. Ég verð að lýsa furðu minni með þetta og gangast við því að Miðflokkurinn á ekki aðalmann í nefndinni. Ég hefði eflaust mátt gera athugasemd í nefndinni á milli umræðna, fyrstu og annarrar. En nú, þegar maður skoðar þetta, þá er þetta mál sem hefði raunverulega getað innifalið áhugaverðasta 6. lið greinargerðar þingvetrarins þar sem félags- og vinnumarkaðsráðherra hefði raunverulega leitt fram mat á áhrifum þessa frumvarps. Þá hefði hann annaðhvort orðið að segja ósatt eða þá að segja það sem þingmenn Flokks fólksins og þingmenn Miðflokksins og fleiri hafa sagt árum saman, þ.e. að aðgerð sem þessi kostar ekki neitt. Hún skilar hagnaði fyrir ríkissjóð með aukinni virkni og aukinni þátttöku í samfélaginu. Í staðinn var valið að fara í einhver þvæluskrif um að leggja mat á kynjamuninn í undirliggjandi tölum sem engu skiptir í þessu samhengi.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég ítreka: Málið er til bóta þó að það hefði verið svo auðvelt að hafa málið miklu betra en hér er gert. Ég kalla aftur eftir því að þingheimur verði upplýstur um það í hverju það felst, sem meiri hluti nefndarinnar vill vekja athygli á í nefndaráliti sínu, að frumvarpið innihaldi skref í átt að nýju greiðslukerfi fyrir starfsgetumissi.