Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[18:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir skelegga ræðu. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, það kostar akkúrat ekki krónu fyrir ríkissjóð að heimila almannatryggingaþegum og öryrkjum að vinna meira. Mig langar til að minna hv. þingmann á frumvarp sem Flokkur fólksins hefur ítrekað komið með hér fyrir þingið þar sem við erum endalaust að benda á að það er hægt að brjóta upp þessa rammgerðu gildru sem þetta fólk situr í. Það er hægt að hætta að refsa þessu fólki með því að líta til nágranna hér allt í kringum okkur, þar á meðal til Svíþjóðar, og sjá hvernig þeir reyndu að bregðast við því. Í stað þess að troða einhverju starfsgetumati upp á öryrkjana sína ákváðu þeir að segja: Ágæti öryrki, við gefum þér tækifæri til að meta það sjálfur hver þín starfsgeta er. Einstaklingum var leyft að fara út að vinna skerðingarlaust í ákveðinn tíma til að prófa það, af því að stór hluti þar eins og hér glímir við andlega erfiðleika, þunglyndi og svartnætti og mjög erfitt fyrir þá að stíga út og fara að taka þátt í samfélaginu. Þetta skilaði hvorki meira né minna en því að 32% af þessum öryrkjum sem reyndu fyrir sér á vinnumarkaði í Svíþjóð skiluðu sér ekki aftur inn á kerfið. Maður nær ekki utan um hugarfarið þarna. Maður nær ekki utan um það hvort þessir einstaklingar viti ekki að tveir og tveir eru fjórir, hvort þeir átti sig ekki á öllum mannauðnum sem felst í öryrkjum sem eru með líkamlega burði en kannski andlega vanlíðan og væri hægt í rauninni með því að koma með einhverja gulrót að draga þá út í samfélagið og gefa þeim kost á að taka þátt með okkur hinum. Maður eiginlega áttar sig ekki á þessu.

Ég spyr hv. þingmann í framhaldinu af þessari fyrirspurn minni: Ertu ekki sammála okkur, hv. þingmaður, að það væri kannski ástæða til þess að stíga aðeins út fyrir boxið og prófa eitthvað allt annað heldur en hingað til hefur verið viðhaft?