Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[18:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé mikið til þess vinnandi að við hjálpum fólki til sjálfshjálpar. Ef okkur tekst að hafa það sem leiðarljós í þeim meðförum og þeim frumvörpum sem hér koma inn sem snerta þessa hópa örorkulífeyrisþega, ellilífeyrisþega sérstaklega í þessu samhengi, þá verður það til mikilla bóta fyrir bæði ríkissjóð og sérstaklega þá einstaklinga sem með því eiga auðveldara með að taka meiri þátt í samfélaginu og verða þátttakendur í hinu daglega lífi með því að mæta til vinnu og skila sínum klukkutímum þar. Þetta gjörbreytir lífi, andlegri heilsu og iðulega líkamlegri líka þeirra sem komast úr viðjum kerfisins, ef svo má segja. Þeir sem hafa burði, sem auðvitað ekki allir hafa, til þess að stunda atvinnu — ég held að í hér um bil öllum tilvikum vilji einstaklingar gera það ef þeir finna sig ekki í þeirri stöðu að skerðingarnar dragi úr þeim allan mátt og hvata til að gera slíkt.