Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[18:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er sammála því að það er auðvitað ekkert annað í stöðunni en að styðja þetta frumvarp, það er þrátt fyrir allt til bóta þó að of skammt sé gengið. Hv. þingmaður teiknaði upp mynd, með hvaða hætti ríkið gæti orðið verr statt fjárhagslega með því að hækka þessi viðmið heldur en halda þeim á þeim stað sem nú er lagt til. Þetta vakti þau hughrif hjá mér að þingmaðurinn væri að lýsa stöðu þar sem leikmaður væri tekin út af í fótbolta án þess að neinn varamaður væri settur inn á í staðinn. Það ku ekki vera mörg dæmi um slíkt en eflaust þekkist það. Ég verð að viðurkenna að ég er dálítið svekktur með sjálfan mig að hafa ekki veitt þessum 6. lið greinargerðarinnar athygli strax þegar mælt var fyrir málinu þannig að það hefði verið hægt að leggja fram eða draga út úr ráðherranum kostnaðarmat frumvarpsins, því að jafn oft og ég hef gagnrýnt kostnaðarmat frumvarpa hér í þinginu þá hef ég aldrei séð 6. lið greinargerðar sem fjallar um eitthvað allt annað en kostnaðarmatið. Það hef ég bara aldrei séð. Ég myndi næstum því treysta mér til að kalla mig sérfræðing hér innan þingsins í að lesa 6. gr. Þetta er einhver undansláttur. Mér segir svo hugur að fyrst og fremst sé það til þess að menn komist hjá því að gangast við þeirri dellu sem þeir hafa viðhaft og talað fyrir árum saman, að kostnaðurinn, að fjárhagslegu áhrifin af máli sem þessu séu bara neikvæð fyrir ríkissjóð í formi þess að ríkissjóður verði af skerðingum sem annars myndu til falla ef viðkomandi einstaklingur væri virkari á vinnumarkaði.