Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[18:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé ákveðinn hluti andsvars hv. þingmanns sem kveikti hjá mér hugsun er varðar það hversu þvingaðir örorkulífeyrisþegar eru að mörgu leyti til þess að sinna þeim störfum sem þeir sinna þó í hinu svarta hagkerfi, ótryggðir og þar fram eftir götunum. Það er vandamál sem er raunverulega alveg sjálfstætt vandamál í þessu öllu. Ég held, eins og hv. þingmaður sagði í seinna andsvari sínu, að það væri margra hluta vegna skynsamlegt að taka kerfið upp með rótum. Það var að einhverju marki, þótti mér, hægt að lesa það út úr yfirlýsingum stjórnarsáttmála og yfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna á fyrstu metrum þessa endurnýjaða samstarfs en síðan er nú eins og með svo margt annað að það gerist bara ekki neitt hjá þessari ágætu ríkisstjórn. Mér er það til efs að við sjáum frumvarp sem raunverulega tekur á þessum málum á næstu misserum. Ég vona það en mér er til efs að það verði raunin. En í þessari heildarmynd allri þá held ég að, hvati er nú sennilega ekki rétta orðið en sú tilhneiging að þeir sem horfa fram á skerðingar vegna atvinnuþátttöku freistist til þess að vinna svart frekar en með öllu uppgefnu, launum og gjöldum, að það sé býsna stór hluti af því svarta hagkerfi sem hér er. Og þótt ekki væri nema bara fyrir tryggingaleysi þessara einstaklinga (Forseti hringir.) á þeim vinnustað sem þeir vinna hverju sinni þá held ég að það sé eitthvað sem ætti að leggja til atlögu við, (Forseti hringir.) burt séð frá upphæð frítekjumarka eða skerðingarhlutföllum.