Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, (framlenging á bráðabirgðaákvæði I). Þetta mál varðar það verkefni sem gengur undir nafninu NPA í daglegu tali.

Markmið frumvarpsins er að lengja innleiðingartíma ákvæðis til bráðabirgða I í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, til loka árs 2024. Þá er lagt til að á árunum 2023 og 2024 verði veitt framlag til að uppfylla efni bráðabirgðaákvæðisins og að samningar um notendastýrða persónulega aðstoð verði allt að 145 á árinu 2023 og allt að 172 á árinu 2024.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og það barst umsögn og minnisblað sem farið er yfir í nefndarálitinu. Gestir sem komu fyrir nefndina fögnuðu fram komnu frumvarpi og lögðu mikla áherslu á að það yrði afgreitt fyrir áramót en jafnframt fóru gestir yfir ýmis álitamál varðandi innleiðingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og samninga um notendastýrða persónulega aðstoð. Gestirnir fóru yfir þessi álitamál og lögðu áherslu á að næstu tvö ár yrðu nýtt vel til úrlausnar þeirra álitamála sem upp hafa komið er varða þjónustu um notendastýrða persónulega aðstoð. Meiri hlutinn tekur undir það og telur mikilvægt að aðilar að samningunum nýti þennan tíma vel og bendir á að gerð er grein fyrir álitaefnunum í greinargerð með frumvarpinu og í umsögninni og minnisblaðinu sem barst til nefndarinnar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álit meiri hluta velferðarnefndar rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Jódís Skúladóttir, sem er framsögumaður málsins en sú sem hér stendur flytur það í hennar fjarveru, Ásmundur Friðriksson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Óli Björn Kárason.