Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir andsvarið. Samkvæmt frumvarpinu er sett þetta markmið um ákveðinn fjölda samninga og það sem velferðarnefnd gerði í sinni vinnu var að fá til sín þá gesti sem koma í rauninni að framkvæmdinni, NPA-miðstöðina og sveitarfélögin, en þeirra fulltrúar voru frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og síðan fulltrúa notenda þjónustunnar. Þar kom auðvitað skýrt fram að það er vilji til þess að halda áfram að þróa verkefnið. Sú sem hér stendur getur bæði verið þolinmóð og óþolinmóð gagnvart verkefninu. Þegar horft er í greinargerðina má sjá að það eru tíu ár síðan að fyrstu tilraunasamningarnir um NPA á Íslandi voru samþykktir, það var árið 2012, en það eru ekki nema fjögur ár síðan lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir tóku gildi. Að því leyti er hægt að horfa á þennan tíma sem bæði langan og stuttan. Það sem mér finnst mjög mikilvægt og kom fram fyrir nefndinni er að aðilarnir sem þurfa að halda áfram að þróa verkefnið eru sammála um að það sé mikilvægt og ríkið er tilbúið að koma með aukið framlag til að styðja við verkefnið. En auðvitað eru sveitarfélögin líka þar með að samþykkja að leggja fjármagn til verkefnisins og þessu frumvarpi fylgir því framlag og staðfesting á því að ríkið sé með aðilunum í verkefninu.