Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir andsvarið. Það eru nokkur atriði sem ber að líta til varðandi það hvernig orðalagið er þarna, „allt að“. Eitt af því er að það er liður í þróun verkefnisins í rauninni að komast að því hver er raunveruleg þörf fyrir þessa þjónustu. Fyrir nefndinni og í umræðunni, almennri umræðu, hafa komið fram ólík sjónarmið varðandi það. Það eru til tölur sem benda til þess að það sé kannski ekki þörf á svona mörgum samningum en svo hafa líka verið uppi raddir um að það liggi kannski ekki fyrir raunverulegt mat á þörfinni vegna þess að sveitarfélögin séu kannski mislangt komin í gerð samninga og við að þróa verklag við að koma á samningum á ólíkum svæðum innan lands. Þeir dreifast mjög misjafnlega um landið, samningarnir, við þekkjum það. Hins vegar held ég að það sé nú töluvert ólíku að jafna í fjármögnun fæðingarorlofs og atvinnuleysistrygginga og þessa verkefnis hins vegar þar sem greiðslur úr fæðingarorlofi og atvinnuleysistryggingar koma vissulega af tryggingagjaldi sem greitt er af launum launamanna og rennur til þessa. Hér er um að ræða fjármagn sem kemur annars vegar frá ríki og hins vegar sveitarfélögum og það er auðvitað samstarf að finna út úr hver er akkúrat rétta skiptingin þar.