Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[19:48]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sitt svar og enn og aftur erum við hjartanlega sammála og það er nú gott þegar kemur að svona mikilvægum málum. Mig langar að spyrja hv. þingmann svipaðrar spurningar og ég spurði framsögumann meiri hlutans varðandi það að setja kvóta, þ.e. skilgreina einhvern fjölda og svo jafnvel ekkert fara eftir þeim fjölda eins og við sjáum að var gert með gömlu lögin. Á það ekki að vera þannig með þetta eins og aðra þjónustu sem við sækjum hjá ríkinu að það sé metið eftir þörfinni, ekki eftir einhverjum tölum sem eru dregnar upp úr hatti í einhverju ráðuneyti? Ég tók víst dæmi óvart þegar ég ræddi við framsögumann meiri hlutans um kerfi þar sem einhver borgar inn í það en við stoppum ekki 101. sjúklinginn sem kemur á bráðamóttökuna bara af því að við erum með pening og kvóta fyrir 100. Við stoppum ekki nemanda númer eitthvað í grunnskólanum af því að það kemur ný barnafjölskylda í hverfið. Ég sé svo mörg kerfi sem við erum með sem eru að þjóna öðrum hópum í samfélaginu þar sem við stoppum ekki. Við stoppuðum heldur ekki t.d. þegar 2.000. Úkraínubúinn kom til landsins heldur héldum við áfram að standa við þau loforð. Af hverju þurfa fatlaðir að búa við kvóta en ekki aðrir þjóðfélagsþegnar?