Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[19:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 (framlenging á bráðabirgðaákvæði I). Þetta er nefndarálit með breytingartillögu frá 2. minni hluta velferðarnefndar sem er minnihlutaálit Flokks fólksins og hljóðar þannig:

„Frumvarp þetta er enn eitt dæmið um skeytingarleysi ríkisstjórnarinnar og sein viðbrögð við ábendingum NPA-miðstöðvarinnar og sveitarfélaganna um vanfjármögnun á þjónustu við fatlað fólk. Frumvarpið, sem fjallar um fjármögnun á NPA-þjónustu strax á næsta ári, barst ekki Alþingi fyrr en 2. desember. Fram að þessu hafa sveitarfélög, NPA-miðstöðin og að sjálfsögðu fatlað fólk lifað í óvissu um hve margir samningar verði gerðir strax á næsta ári. Þá hafa NPA-samtökin bent á það að jafnvel þótt kveðið sé á um það í frumvarpinu að tiltekinn fjöldi samninga verði gerður á árunum 2023 og 2024 fylgi frumvarpinu þó engin trygging fyrir því að svo verði gert. Þau bráðabirgðaákvæði sem renna út 1. janúar 2023 áttu að tryggja gerð 172 samninga en fjármagnið sem ríkisstjórnin hefur lagt til verkefnisins dugar ekki fyrir þeim fjölda. 2. minni hluti telur ástæðu til að vekja athygli á varnaðarorðum NPA-miðstöðvarinnar. Í umsögn samtakanna segir: „[M]eðalkostnaður NPA-samninga var 30,6 millj. kr. árið 2021. Því má ætla að um vanáætlun sé að ræða í mati á áhrifum frumvarpsins sem gerir ráð fyrir að meðaltalskostnaður á samning sé 30 millj. kr. fyrir árið 2023. Afar ólíklegt er því að þær 375 millj. kr. sem mælt er fyrir um dugi til að mæta þeim 50 samningum sem gert er ráð fyrir að náð verði árið 2023 með framlaginu.“

Það er gömul saga og ný að mæla fyrir um tiltekna þjónustu í lögum en koma í veg fyrir framkvæmd hennar með því að tryggja ekki viðhlítandi fjármagn í fjárlögum.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að þar sem kostnaður við framkvæmd laganna sé í mörgum tilfellum langt umfram það sem gert var ráð fyrir í upphafi sé það krafa sveitarfélaga að ríkið fjármagni 30% verkefnisins í stað 25%. Sambandið tekur einnig fram að þegar hjúkrunar- eða umönnunarþörf er verulegur hluti kostnaðar við samninga þurfi að koma til aukið framlag frá heilbrigðiskerfinu til að mæta þeirri þörf. Eins og sambandið bendir á var í upphafi gert ráð fyrir að meðaltal samningsupphæða yrði um 13 millj. kr. en samkvæmt tölum frá árinu 2021 var meðalkostnaður við samning 30,6 millj. kr.

2. minni hluti tekur undir áhyggjur NPA-miðstöðvarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að meira fjármagn vanti frá ríkinu til að standa megi við gefin loforð um fjölda NPA-samninga. 2. minni hluti telur að fari svo að fjármunir dugi ekki fyrir þeim 50 samningum sem til stendur að gera þurfi að endurskoða fjárhæðir og tryggja viðbótarfjárheimild svo að tryggja megi gerð 145 samninga fyrir lok ársins 2023.

2. minni hluti leggur til að málið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Orðin „allt að“ í báðum efnismálsliðum b-liðar 1. gr. falli brott.“

Enn eina ferðina er verið að taka við NPA-samningum hér inn í þingið og framlengja bráðabirgðaákvæði. Þetta eru óþolandi vinnubrögð. Hingað til hefur þetta verið gert á ársfresti, núna á þetta að vera á tveimur árum. Það kemur vel fram hjá NPA-miðstöðinni hver þörfin er. Það eru um 50 samningar sem þarf að koma á núna. Það á að sjá til þess en það átti líka löngu að vera búið að því. Við erum með yfir 150 manns inni á hjúkrunarheimilum sem gætu fallið undir NPA en það vilja ekki allir NPA. En við eigum að tryggja þeim samning sem vilja hann núna og eru á biðlista. Til þess er leikurinn gerður, ekki til þess að ríkið geti skammtað og sagt: Við látum bara þessa peninga í þetta og það eru þessir sem fá þá. Við verðum að átta okkur á því að við erum að tala um 50 einstaklinga og við getum ekki sagt að 40 fái en sá sem er nr. 41 fái ekki neitt. Svoleiðis leikur á ekki að eiga sér stað og er óþolandi fyrir þá aðila sem ekki fá þann rétt sem þeir eiga samkvæmt lögum og, ekki gleyma því, áttu að vera löngu búnir að fá. Ríkisstjórnin og sveitarfélögin verða að hætta að henda þessu á milli sín eins og heitri kartöflu, eins og þetta sé einhver kostnaður sem þarna er á ferð sem er gífurlegur og þess vegna sé orðið tap. Það er þeim sjálfum að kenna. Það voru engir aðrir sem reiknuðu þetta út en ríkið og sveitarfélög og ef þau kunna ekki að reikna verðið þá verða þau bara að taka því og reikna upp á nýtt, reikna rétt, en ekki láta það bitna á þeim sem bíða eftir þjónustunni og hefur verið lofað því að þessir samningar yrðu gerðir og þeir myndu fá þá samninga sem átti að vera löngu búið að tryggja. Við verðum komin niður í 172 samninga í janúar 2023 sem er ekki langt í að verði.

Málið er einfalt. Tryggjum þetta og stöndum nú einu sinni við þetta, klárum að ganga frá lögunum þannig að við þurfum ekki að vera með bráðabirgðaákvæði lengur og framlengja, nú eru tvö ár til þess en því miður af reynslunni óttast ég helst að það verði komið hingað eftir tvö ár með enn eitt bráðabirgðaákvæði og enn eina ferðina verði ekki staðið við samninginn. Vonandi sér ríkisstjórnin til þess að þær áhyggjur mínar séu ástæðulausar og sanni það fyrir mér að núna sé hún loksins komin á þann stað að hún ætli sér að standa við gefin loforð og sjá til þess að þeir sem þurfa á þessu að halda og vilja fái samninginn.