Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[20:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nei, ég sé enga ástæðu til þess að standa ekki við kvótann. En það sem ég óttast í þessu samhengi er að þetta er til tveggja ára og ég hef verið að spyrja mig að því: Af hverju er þetta til tveggja ára? Hvað er þarna undir? Ég óttast það helst líka að ef þetta dregst í tvö ár þá held ég að það verði ekki búið að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks vegna þess að um leið og samningur Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks yrði lögfestur þá væri ekki hægt að haga sér svona. Það er þess vegna forgangsatriði. Það var samþykkt hérna fyrir tveim árum síðan að ganga í það að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna en það er ekki búið að gera það enn þá. Núna eru þeir að fresta því að uppfylla þennan samning um NPA í tvö ár og þá óttast ég að þeir muni teygja lopann og ætli ekki að lögfesta samninginn. Ef þeir lögfesta hann fyrr á þessu tímabili, ég tala nú ekki um viðaukann, þá er komin kæruheimild til að taka á þessu og draga þá hreinlega fyrir dóm. Miðað við það sem á undan er gengið þá óttast ég að það verði ekki staðið við þetta. En ég vona — maður vonar alltaf, eins og þegar því var fagnað á sínum tíma þegar við gerðum þessa fyrstu samninga um NPA, náðum því í gegn. Þá var bjartsýni en þetta hefur ekki litið dagsins ljós. En eins og ég segi, maður vonar alltaf að úr rætist.