Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[20:28]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir ræðu sína sem var að mörgu leyti fróðleg. Hann talar t.d. mjög mikið um það sem er í bráðabirgðaákvæðinu sem hér er verið að fjalla um, sem er breyting á ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 38/2018, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þar er þetta fræga bráðabirgðaákvæði. Þar er talað um að á árinu 2023 eigi að gera allt að 145 samninga og á árinu 2024 allt að 172 samninga. Nú er þetta töluverður hópur fólks og það kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta t.d. að í dag er aðeins 91 samningur fjármagnaður. 44 einstaklingar bíða eftir samningi um NPA-þjónustu, bíða eftir samningi um notendastýrða persónulega aðstoð. Maður getur velt fyrir sér: Hvernig er líðan þessa fólks sem fær ekki þessa samninga? Það eru 44 einstaklingar sem fá ekki þennan rétt, fá ekki þessa aðstoð. Þetta er stjórnarskrárvarinn réttur. Samkvæmt 76. gr. á þetta fólk vegna örorku rétt á því að fá aðstoð en hún er ekki veitt. Veit hv. þingmaður eitthvað um stöðu þessa fólks, getur hann upplýst þingheim um það? Líka varðandi fjármögnunina. Sveitarfélögin borga 75% og ríkið 25% en ríkið virðist ekki hafa náð þeim markmiðum að láta fjármagnið fylgja orðræðu. Mynd og hljóð fara ekki saman.