Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[20:33]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta eru 44 einstaklingar sem bíða eftir samningi um NPA-aðstoð. Það féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. mars í fyrra en þar hafði einstaklingur sótt um NPA-aðstoð í sveitarfélaginu sínu. Umsögnin var afgreidd rúmlega ári síðar þannig að hann þurft að bíða í rúmlega ár. Sveitarfélagið batt afgreiðsluna því skilyrði að samningurinn tæki ekki gildi fyrr en ríkið hefði samþykkt fjármögnun á hluta af samningnum. Sveitarfélag eru að binda þessa aðstoð svona skilyrði: Heyrðu, þú færð ekki réttinn til aðstoðar nema fjármögnun frá ríkinu sé fyrir hendi. Núna er þessi málaflokkur á borði sveitarfélaganna. Vissulega hefur ríkið ekki staðið við sinn hlut. Niðurstaða dómsins þar var sú að ekki sé lagastoð fyrir þessu, afgreiðslan hafi dregist ótæpilega og jafnframt að sú ákvörðun sveitarfélagsins að binda rétt fatlaðs fólks til þessarar þjónustu við skilyrði um að framkvæmdin verði háð framlögum frá ríkinu eigi sér enga lagastoð. Gagnvart umsækjendum um þessa þjónustu skiptir engu máli hver borgar. Skipting kostnaðarins skiptir engu máli, þessi 75% á sveitarfélögin og 25% á ríkið. Það skiptir engu máli. Það hefði verið áhugavert ef þessi einstaklingur sem fór með málið fyrir héraðsdóm hefði líka farið í mál við ríkið vegna þess að hann á rétt á því samkvæmt stjórnarskránni að fá þessa aðstoð. Ég velti fyrir mér hvort þessir samningar ættu ekki bara heima hjá ríkinu, sérstaklega stóru samningarnir þar sem ríkið (Forseti hringir.) ber á endanum ábyrgð á þessu. Sveitarfélögin gera bara það sem segir í lögum að þau eigi gera.