Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[20:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina og kannski sérstaklega hversu fylginn sér þingmaðurinn er í að nefna stjórnarskrána í þessu samhengi, að nefna það ákvæði stjórnarskrárinnar sem tryggir fólki rétt til ákveðinnar félagslegrar velferðarþjónustu í samfélaginu, vegna þess að við hljótum að spyrja okkur hvers megnugt það ákvæði er þegar vanefndir á NPA-samningum samkvæmt bráðabirgðaákvæði gildandi laga eru jafnmiklar og raun ber vitni. 91 samningur sagði hann að hefði verið gerður af þeim 172 sem gera átti á þessu ári, eða allt að 172 sem gera átti á þessu ári. Það eru ekki nema 53% af því sem lagaramminn sagði að ætti að stefna að á þessu ári. Þetta er alveg himinhrópandi skortur á efndum.

Mig langar að velta því hér upp hverju lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefði breytt varðandi þetta. Nú eru þrjú ár síðan átti að vera búið að lögfesta hann, samkvæmt samþykktri ályktun Alþingis, þrjú ár þar sem fólk sem hefur rétt á NPA-þjónustu hefði átt að geta sótt þann rétt gegnum lögfestan samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Erum við mögulega í þessu máli að sjá í kollinn á þeirri staðreynd að tafir á lögfestingu samningsins um réttindi fatlaðs fólks stafi mögulega af einhverjum fjárhagslegum hagsmunum hins opinbera, (Forseti hringir.) að það væri of flókið eða dýrt fyrir ríkisstjórnina að standa við eigin loforð ef fatlað fólk hefði verkfæri til að sækja rétt sinn?