Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:04]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þær glufur sem eru enn á regluverkinu í kringum NPA-samningana, margt af því er eitthvað sem hann kom inn á í ræðu sinni, og í fyrsta lagi varðandi kostnaðarhlutdeild ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélög hafa frá upphafi, frá því að málið kom hér fyrst fyrir árið 2018, bent á að 25% hlutur ríkis væri of lítill, 30% væri eðlilegra. Þessi vanáætlun ríkisins við samþykkt þessara laga 2018 hefur orðið til að byggja upp heilmikinn skuldahaug hjá sveitarfélögum um allt land.

Síðan varðandi þær breytingartillögur sem eru komnar fram úr velferðarnefnd: Mig minnir að 1. og 3. minni hluti séu báðir með keimlíkar breytingartillögur sem einblína báðar á orðin „allt að“. Önnur tillagan leggur til að taka þessi orð bara út og hin að setja í staðinn, „a.m.k.“ þannig að það verði bara miklu skýrara í þessum sértæku lögum að vilji þingsins standi til þess að þessi kvóti sé alla vega fylltur, þó að okkur sé kannski þvert um geð að kvótasetja réttindin með þessum hætti þá alla vega sé kvótinn fylltur en ekki hálffylltur eins og raunin er við uppgjör þessa árs. Mig langaði aðeins að heyra hvað hv. þingmanni finnst um þessar breytingartillögur sem við munum fjalla um hér í atkvæðagreiðslu.