Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:12]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Mig langaði þó að benda á að flestar þær skerðingar sem hv. þingmaður benti á snertu fjármagn eða upphæðir, ekki fjölda einstaklinga. Mér þykir það vera mismunun ef 50 fyrstu sem sóttu um fá þjónustuna fái hana en ekki næstu 50 af því að þeir voru ekki fyrstir að sækja um. Það finnst mér vera kvótasetning á mannréttindum sem á ekki að vera. En mig langaði í seinna andsvarinu að spyrja hv. þingmann um það sem hann ræddi mikið um, að kostnaður við þessa þjónustu fellur bæði á ríki og sveitarfélög. Nú er hv. þingmaður í fjárlaganefnd. Það virðist vera þannig með mjög mörg svona verkefni þar sem verið er að setja þjónustuna yfir á sveitarfélögin, t.d. hjúkrunarheimilin og svo þetta, að það virðist ekki nægt fjármagn fylgja með. Hvað telur hv. þingmaður að sé hægt að gera til að tryggja það að þegar við erum að flytja þjónustu frá ríkinu yfir á sveitarfélögin þá fylgi nægilegt fjármagn með og kannski réttur útreikningur á því hvað hlutirnir muni kosta?