Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:13]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar stórt er spurt. Ég tel að á Íslandi sé sveitarstjórnarstigið allt of veikt. Við erum með allt of mörg sveitarfélög. Við erum með nokkur sveitarfélög undir 100 manns, 100 íbúum. Við getum spurt okkur að því hvort við hér inni getum stofnað sveitarfélag. Ég man að þegar ég var í sveit hjá frænku minni í Lokinhamradal þá voru níu manns í sveitarfélaginu, Auðkúluhreppi hinum forna. Það voru fundir í sveitarstjórn í Auðkúluhreppi í stofunni á Hrafnabjörgum. Það var rætt við ýmsa og það var mjög gaman að fylgjast með umræðunum og spjallinu. Níu manns. Er hægt að búa til stjórnvald úr því? Nei, það er ekki hægt, held ég. Ég tel að sveitarstjórnarstigið þurfi að endurskipuleggja frá grunni og fækka sveitarfélögum. Við þurfum bara að horfa á þetta út frá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum. Það að íslenska ríkið og við á Alþingi séum að flytja verkefni til sveitarfélaganna og ekki láta peninga fylgja með er bara óásættanlegt. Við getum gert það með samningum. Við getum haft samninga eins og í Danmörku um fjármögnun eða þá haft tekjustofna o.s.frv. Það er óásættanlegt að við skulum vera að flytja verkefni til sveitarfélaga og þau hafa ekki efni á því og þetta keyrir sveitarfélög í þrot. Þetta er meira að segja íþyngjandi fyrir Reykjavíkurborg, langstærsta sveitarfélagið með 130.000–140.000 manns. Það er ekki ásættanlegt. Það sýnir það að við þurfum að undirbúa málið miklu betur. Við verðum að undirbúa það miklu betur. Við eigum að tryggja réttindi fólks, það fái réttindin, en við þurfum líka að tryggja að þau séu fjármögnuð. Þetta snýst allt um peninga á endanum. Ég hugsa kannski svona mikið um peninga af því að ég er í fjárlaganefnd en það breytir því ekki að það eru einstaklingar þarna á bak við. Það eru 40 einstaklingar í dag sem bíða eftir því að fá þjónustuna. Þetta er allt fólk. Hvað ætli það sé að gera í dag? Það væri fróðlegt að vita það. Hvernig líður þessu fólki? Það þarf að setja peninga í þessa samninga og það er upp á okkur komið, finnst mér. (Forseti hringir.) Ábyrgðin er alltaf endanlega hér. Hver ræður gangi mála í þingræðisríki ef ekki þingið? Það erum við sem stjórnum þessu.