Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:39]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Og sjáðu til, það hefði verið dásamlegt ef hún hefði getað endað á því að botna laglínuna sem ég söng hér áðan. Nei, ég er ekki sammála því að við hefðum getað sparað með því að byggja ekki við vegna þess að við erum að leigja húsnæði. Þingið er að leigja húsnæði fyrir milljónir og aftur milljónir, allt í kringum Austurvöll. Á einhverjum fimm til sex árum verðum við búin að greiða upp bygginguna okkar hér úti, alla vega ekki á mjög mörgum árum. Hins vegar eru mál eins og Landsbankinn fyrir 6 milljarða, Snobbhill. Hins vegar eru mál eins og að lækka bankaskattinn, þar væru komnir aðrir 9 milljarðar, bara ef hann hefði fengið að vera eins og hann er. Hins vegar eru það veiðigjöldin, sjávarútvegurinn hefur þénað 533 milljarða frá árinu 2009, sjávarútvegsfyrirtækin beint í vasann. Það eru 533 milljarðar beint í vasann, þegar búið er að borga „veiðigjöld“, og ég segi það innan gæsalappa vegna þess að þetta er náttúrlega engan veginn boðlegt. Ég segi: Við getum átt svo fullt af peningum. Eitt af frumvörpum Flokks fólksins er að taka staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóðina þannig að þegar við erum að greiða í lífeyrissjóðinn væri tekin staðgreiðsla strax af því, þá rynnu 60 til 70 milljarðar af aukakrónum á hverju einasta ári í ríkissjóð. Við þyrftum ekkert að selja Íslandsbanka á hverju ári til að ná í einhverja 53 milljarða, heldur værum við að fá þessa fjármuni á hverju einasta ári. Við erum með svo mikið af flottum fjármunum sem geta komið inn ef við forgangsröðum þeim fyrir fólkið fyrst. Við getum afnumið allar skerðingar. Það geta allir fengið að taka þátt í samfélaginu. Við getum komið með 400.000 kr. í grunnframfærslu skatta- og skerðingarlaust. Nefnið það bara. Þetta væri bara eins og himnaríki, virðulegi forseti.