Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:41]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Lenya Rún Taha Karim) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir svarið við andsvari mínu. 533 milljarðar, það er upphæðin sem hv. þingmaður nefndi. Nú ætla ég að spyrja um NPA-samningana en kannski kem ég að því síðar í ræðu minni og hv. þingmaður getur farið í andsvar við mig. En 533 milljarðar, virðulegi forseti. Ég ætla bara að láta í smástund eins og við búum í draumaheimi og ég ætla að nefna hlutina sem við getum gert fyrir 533 milljarða. Eins og hv. þingmaður sagði gætum við hækkað lágmarksframfærslu örorkubóta upp í 400.000 kr., meira að segja upp í 500.000 kr. Við gætum gefið eldra fólki desemberuppbót, alveg eins og við erum að gefa öryrkjum desemberuppbót. Við gætum sett meira fjármagn í fangelsin og nýtt fjármagn í það að efla fangelsin og geðheilsuteymin innan fangelsanna, ekki bara að vopnavæða fangaverðina. Við gætum sett meira fjármagn til lögreglunnar og á rannsóknarsviðið, í ákæruvaldið, þannig að það taki ekki 180 daga að rannsaka eitt kynferðisbrotamál.

Virðulegur forseti. Það er hægt að gera svo mikið með 533 milljarða. Guð minn almáttugur, ég gæti verið hér í allt kvöld að nefna hvað hægt er að gera við þennan pening. En þetta er einmitt spurning um forgangsröðun alveg eins og hv. þm. Inga Sæland segir.