Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú að byrja á að segja eins og Björn og Benny: Thank you for the music, takk fyrir tónlistina. Þegar komið verður fram yfir miðnætti, ef ég má biðja um óskalag, bið ég um Abba og get komið með tillögur að lögum. En það var eitt og annað áhugavert til viðbótar sem kom fram í ræðu hv. þingmanns og ég gæti hugsað mér að spyrja út í margt af því. En til að byrja með spyr ég út í atriði sem kom reyndar líka til umræðu eftir ræðu hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar, í andsvörum hv. þm. Gísla Rafns Ólafssonar, varðandi aðkomu sveitarfélaganna að NPA, notendastýrðri persónulegri aðstoð. Þetta hefur reynst mörgum sveitarfélögum gríðarlega erfitt og það verður að segjast eins og er að þetta er dýrt. Ef fólkið sem vinnur við að veita þessa þjónustu fengi betri laun, eins og við gjarnan vildum, væri það enn dýrara. Því velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður geti tekið undir það með mér, eða a.m.k. velt vöngum yfir því, að hugsanlega hafi verið gengið of langt í því að færa þennan málaflokk, þjónustu við fatlað fólk, til sveitarfélaga. Við erum ekki nema rúmlega 350.000 manns, Íslendingar, og hvað sem líður sameiningum sveitarfélaga — jafnvel þó að við myndum sameina öll sveitarfélög á Íslandi og búa til úr því eitt sveitarfélag væri það ekkert svakalega stórt sveitarfélag á alþjóðlegan mælikvarða. Er ekki einfaldlega kominn tími til að meta það hvort þessi þjónusta eigi að færast aftur til ríkisins svo að við getum öll sameiginlega, Íslendingar, tekið á því að veita því fólki sem þarf þessa þjónustu og á rétt á henni fulla þjónustu?