Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil sannarlega hvað hv. þingmaður er að fara þegar vísað er til sveitarfélagsins Reykjavíkur. Það sveitarfélag heldur áfram að taka að sér ný verkefni án þess að hafa nokkra einustu hugmynd um hvernig þau verði fjármögnuð, eða hvernig farið verði að því. En það var ýmislegt fleira sem kom fram í ræðu hv. þingmanns og ég vil nefna tvennt og spyrja út í það. Annars vegar nefndi hv. þm. Inga Sæland 47 ára gamlan mann sem hefði vegna skorts á þjónustu við hann, þjónustu sem viðkomandi á væntanlega rétt á, verið settur á öldrunarheimili, á elliheimili. Ég hef því miður heyrt allt of margar slíkar sögur. Þetta virðist nánast vera orðin viðtekin venja og sætir furðu.

Hitt sem ég vildi nefna er skortur á stuðningi við SÁÁ og aðra slíka starfsemi. En er þetta ekki hvort tveggja afleiðing af því að þau áform sem stjórnvöld kynna eru í allt of mörgum tilvikum fyrst og fremst einhverjar umbúðir? Þegar kemur svo að því raunverulega að framkvæma og standa við hlutina þá er farið í einhverjar furðulegar og óhagkvæmar og jafnvel ómannúðlegar aðgerðir eins og að setja ungt fólk inn á öldrunarheimili eða loka þjónustu hjá SÁÁ sem mun eingöngu auka vandann til lengri tíma litið.