Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[22:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst þetta einmitt svo merkilegt. Minni hlutinn er nefnilega mjög oft ekki bara í einhverri pólitík í tillögugerð sinni, sérstaklega við fjárlög, heldur er einfaldlega að grípa ábendingar sem koma frá sérfræðingum eða hagsmunaaðilum — getur maður kallað sveitarfélögin það, hitt stjórnsýslustigið sem sinnir ýmissi grunnþjónustu við borgarana? Þarna er gat. Það hefur legið fyrir og strax þegar lög um NPA voru sett þá lá fyrir að þetta væri væntanlega vanfjármagnað af sjónarhóli sveitarfélaganna séð. Það hefur síðan orðið reyndin þegar framkvæmdin hefur komist í fast form og þegar sveitarfélögin benda á það þá er bara annar helmingur þingsins sem opnar eyrun. Upplýsingarnar liggja fyrir. Vilji Alþingis er skýr varðandi það að veita þessa þjónustu en allt kemur fyrir ekkert. Nú er oft talað um að samstarfið í fjárlaganefnd sé með miklum ágætum og mér sýnist það nú á því hvernig nefndarfólk vinnur saman. Þetta er hópur sem ver meiri tíma með hvert öðru en væntanlega með nokkrum öðrum lifandi verum meðan þau eru að afgreiða fjárlög, alla vega. Hvers vegna sigtast svona mál, sem maður myndi halda að væri þverpólitískt samstöðumál eins og að fullfjármagna NPA-samningana, þannig að það skapast þessi togstreita á milli ríkis og sveitarfélaga? Þetta er algerlega óþörf togstreita sem kemur niður á þjónustuþeganum sem gæti ekki verið meira sama úr hvaða vasa þessi peningur kemur. Af hverju nær fólk ekki saman um þetta?